138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:34]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skuldaúrræði stjórnvalda og banka eru mörg og þau eru ætluð til þess að koma til móts við þarfir ólíkra hópa lántaka og allt í anda þeirrar stefnu að eingöngu eigi að aðstoða þá sem sannarlega eru á vonarvöl. Vaxandi óánægja er með það í samfélaginu að þessi úrræði leiðrétti ekki hina miklu eignatilfærslu sem hefur átt sér stað frá lántakendum til fjármagnseigenda og birtist m.a. í stökkbreyttum lánum. Í dag þarf sífellt að hugsa upp ný úrræði til að bjarga fyrir horn hópum sem falla á milli ólíkra úrræða eða geta ekki lengur greitt kostnaðinn af því að fá léttari greiðslubyrði í gegnum greiðslujöfnun. Stöðugt fleiri hópar hrópa á lausnir sem leysa þá út úr skuldafangelsinu og þeim fjölgar sem misst hafa greiðsluviljann eða eru komnir í vanskil.

Frú forseti. Það þarf úrræði sem eru eitthvað annað en smáskammtaúrræði. Smáskammtaúrræði eru samfélaginu dýr. Þau taka mikinn tíma, útheimta mikinn mannafla og gætu tafið endurreisnina. Auk þess þarf ríkið að fjármagna umfangsmikið eftirlit með öllum þessum smáskammtaúrræðum.

Hið nýja Ísland mun mótast af því hvernig við tökum á skuldavanda heimila og fyrirtækja, þ.e. hverjir verða ofan á og hverjir verða undir og hundeltir fram í rauðan dauðann af kröfuhöfum. Ef sátt á að nást í þessu samfélagi verður að grípa í mun meira mæli til almennra aðgerða eins og höfuðstólslækkunar, eins og að lántakar geti skilað inn lyklum að fasteign sinni, eins og að kröfur fyrnist á t.d. fimm árum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Frú forseti. (Forseti hringir.) Við þurfum úrræði sem losa fólk úr skuldafangelsi.