138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu og þann góða tón sem hér hefur verið og mikla samhljóm sem ég skynja í viðureign við þessi flóknu mál. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir beindi til mín þeirri brýningu að ganga í að tryggja að svigrúm bankanna til lækkunar skulda yrði nýtt að fullu og öllu. Ekki stendur á mér í því. Sá boðskapur sem ég flutti í upphafi var sá að höfuðáhersla okkar verði á að styrkja þannig réttarstöðu skuldara að bankar felli niður þær skuldir sem ekki er greiðslugeta eða veðrými fyrir. Í því er ekkert hámark í tölum. Bankarnir verða að horfast í augu við þær staðreyndir sem eru á markaðnum og bankarnir eiga að axla byrðarnar af því. Leiðin til að gera það er að gera nákvæmlega það sem hér var nefnt og hv. þm. Lilja Mósesdóttir nefndi réttilega, að enginn yrði hundeltur. Það er markmiðið. Það er markmiðið með þeim löggjafarbreytingum sem við höfum verið að koma á og viljum koma á í framhaldinu, þ.e. að styrkja svo réttarstöðu skuldara að menn komist undan óbærilegri skuldsetningu með fljótvirkum hætti, eigi sér annað líf, jafnvel þó að þeir hafi reist sér hurðarás um öxl, jafnvel þó að allt hafi farið á versta veg, þannig að við læsum fólk ekki inni í skuldafangelsi, eins og við höfum gert í öllum kreppum og efnahagsáföllum hingað til.

Við viljum snúa frá þeirri villu vegar að hneppa fólk í skuldafangelsi og læsa það í gjaldþrotafjötrum árum og áratugum saman. Það er markmið þeirra breytinga sem við viljum ráðast í. Í því efni viljum við tryggja að bankarnir gangi eins langt og ástæða er til í að lækka skuldir og laga þær að greiðslugetu fólks og að veðrými eigna. Það á ekki að hlífa bönkunum við því í einu eða neinu. Þeir eiga að bera þessar byrðar og enginn annar. Löggjöfin þarf að vera þannig að hún auðveldi fólki að láta bankana bera þessar byrðar. Það er verkefnið okkar.