138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Þá liggur það fyrir að að hans mati er ósanngjarnt af Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandinu og vélstjórafélaginu, sem heitir eitthvað annað í dag, að fara fram á það að þetta mál verði dregið til baka. Ég ætla ekki að gera ágreining við hann um þetta, þetta er hans mat, ég er ósammála því, en það liggur fyrir að hann telur að þeir séu að fara fram með ósanngjörnum og óbilgjörnum hætti.

Í annan stað varðandi gullkarfann og djúpkarfann. Það er bara þannig að frumvarpið, eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu nefndarinnar, gerir ekki ráð fyrir að kvótum verði úthlutað á grundvelli raunverulegrar veiðireynslu í hvorri tegund fyrir sig. Vilji hv. þingmaður láta það gerast með öðrum hætti en þeim sem er í frumvarpinu, verður hann að beita sér fyrir því að þetta ákvæði verði kallað aftur, því verði frestað, það liggja ekki fyrir nægjanleg gögn til að fara aðrar leiðir. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Mun hann beita sér fyrir því þegar málið kemur milli 2. og 3. umr. að þetta ákvæði verði afturkallað (Forseti hringir.) og mun hann beita sér fyrir því áður en málið verður afgreitt úr 2. umr. með atkvæðagreiðslu að þetta ákvæði verði sérstaklega kallað aftur?