138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:32]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að heyra á hv. þingmanni að hann átti sig ekki á því um hvað ágreiningurinn er. Það er enginn að tala um að hætta umræðum um sjávarútvegsmál, það er verið að tala um að gefa þeirri sáttanefnd sem er að fjalla um grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu frið til að vinna.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvernig hann ætli að ná fullu samráði við vísindamenn og sjómenn, eins og hann orðaði það, um umframheimildir í skötusel og hvort hann gæti hugsað sér að lagt yrði sambærilegt á einhverjar aðrar tegundir og þá þyrftum við að fara í 230–240 þús. tonn í þorski, ef við ætluðum að fara í svipaða ráðgjöf á þeim stofni.

Hv. þingmaður nefndi það að sjávarútveg á Íslandi yrði að reka á hagkvæman hátt og það yrði að gera með þjóðarhag að leiðarljósi, hag þjóðarinnar að leiðarljósi en ekki einstaklinga og fyrirtækja. Ég hef áhuga á í að fá nánari skýringar hjá þingmanninum á þessu. Í mínum huga er engin leið að skilja þarna á milli. Það er hagur einstaklinganna og fyrirtækjanna sem myndar þjóðarhag í þessu samhengi.

Hv. þingmaður vill taka tillit til þeirra sem hafa verið á skötuselsveiðum og eiga þar kvóta, hann er tilbúinn til að reyna að bæta þeim þau 500 tonn sem af þeim hafa verið tekin og samkvæmt frumvarpinu fá þeir ekki þá endurúthlutun til baka. Nú á að taka af útgerðarmönnum, fyrst og fremst smærri smábátaútgerða, þennan kvóta sem þeir hafa keypt sér og skilja þá eftir með skuldirnar. Er þingmaðurinn á sama tíma að lýsa því yfir að hann sé ekki fylgjandi þeirri fyrningarleið sem er boðskapur núverandi ríkisstjórnar?