138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:37]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Þær hugmyndir sem ég er að viðra hér og hv. þm. Jón Gunnarsson var að spyrja út í varðandi leigu á öðrum tegundum en skötusel, eins og hér hefur komið fram og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, ég sé það fyrir mér einfaldlega með mjög svipuðum hætti, að ákveðið hlutfall af úthlutun verði tekið frá hverju sinni til útleigu. Hvað er ósanngjarnt við það þegar fyrir liggur að fjöldi manns, hundruð manna ef ekki þúsund um allt land sem gera út á leigumarkað skapa vinnu í landi með fisk sem er veiddur af leigumörkuðum þeirra sem hafa heimildirnar fyrir, hvað er ósanngjarnt við það að sinna þeim með sama hætti og við ætlum að gera með skötuselinn? Það er ekkert ósanngjarnt við það, það er fullkomlega sanngjarnt að við sinnum því kerfi sem hefur myndast til hliðar við aflamarkskerfið (Forseti hringir.) á undanförnum árum nema það sé markmiðið að leggja það af.