138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í sjálfu sér lætur þetta frumvarp ekki mikið yfir sér en nafnið er svolítið villandi eða það nafn sem frumvarpinu hefur verið gefið í umræðunni, svokallað skötuselsfrumvarp, og mætti af því ráða að það fjallaði fyrst og fremst um veiðar og nýtingu á skötusel. En frumvarpið tekur á ákveðnum grundvallarþáttum og því er þessi ágreiningur í þingsölum vegna þess að þetta eru grundvallarþættir sem skipta mjög miklu máli þegar kemur að því hvernig við nýtum fiskstofnana við Íslandsmið. Það er löng og sorgleg saga af því hversu illa við fórum að ráði okkar árum og áratugum saman, þ.e. hvernig við nýttum stofnana, í skrapdagakerfinu með opnum aðgangi þar sem sóunin var alveg gegndarlaus.

Auðvitað sýnist sitt hverjum um kvótakerfið og það er ekki gallalaust kerfi, alveg augljóslega ekki, en það hefur marga mjög góða kosti. Einn sá kostur sem skiptir mestu máli, og flestir hafa verið sammála um hingað til, er að hann byggir á þeirri hugsun að menn hafi hlutdeild í heildarafla. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar fiskifræðingar og aðrir vísindamenn koma fram með rök fyrir því að nauðsynlegt sé að skera niður heildaraflann hafa þeir sem eiga hlutdeild í aflanum beina hagsmuni af því að fara eftir slíkum ráðleggingum vegna þess að þau ráð byggja á þeirri hugsun að sé farið eftir þeim muni aflinn aukast þegar fram líða stundir, það sé því í hag fyrir þá sem stunda sjóinn að fara eftir slíkum ráðleggingum.

Nú er ég í hópi þeirra sem hafa haft heilmiklar athugasemdir við það sem gerist á Hafrannsóknastofnun en þetta prinsipp, þessi meginhugsun, um hana ættu allir að geta verið sammála. Frumvarpið, og þess vegna skiptir það máli, byggir á því að afnema þessa tengingu. Þess vegna er nafnið skötuselsfrumvarp svo misvísandi og afvegaleiðandi vegna þess að með því að tekin er sú ákvörðun að þeir sem hafa fjárfest í skötuselskvóta verði núna skertir og látnir sæta skerðingu úr 3.000 tonnum niður í 2.500, en um leið sé ákveðið að hægt verði að auka kvótann og hann seldur frá ríkinu, er verið að taka þetta mikilvæga samhengi úr sambandi. Það er alveg lykilatriði. Þess vegna er þetta ekki neitt meinlaust lítið frumvarp.

Næsta atriði er líka alveg grundvallaratriði. Við höfum haft það svo í fiskveiðistjórn okkar að Hafrannsóknastofnun geri tillögur en síðan er það ráðherra málaflokksins sem tekur ákvörðun um hversu mikið eigi að veiða. Sú hefð hefur myndast að þó að ekki sé farið í einu og öllu eftir því sem Hafrannsóknastofnun segir hafa ráðherrar málaflokksins á undanförnum árum og áratugum reynt eftir fremsta megni að fara eftir þeim tillögum. Því ber nýrra við og er í raun alveg stóralvarlegt mál að nú skuli sú hætta vera uppi að Alþingi eigi að fara að samþykkja það með lögum að ráðherrann hafi heimild til að fara 80% fram úr þeirri ráðgjöf sem liggur til grundvallar vísindalegri og sjálfbærri nýtingu fiskstofnanna.

Öðruvísi mér áður brá, frú forseti, að sjávarútvegsráðherra úr röðum Vinstri grænna, sem hafa lagt allt kapp á að tala fyrir ábyrgri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, skuli láta sér detta það í hug að leggja fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp sem gengur út á það að hann hafi heimild til að fara 80% fram úr þeirri ráðgjöf sem vísindamenn gefa um það hvernig nýta megi þennan stofn þannig að um endurnýjanlega og ábyrga nýtingu sé að ræða. (Gripið fram í: … náttúru.) Þetta eru fullkomin og algjör öfugmæli, frú forseti. Þessi tvö atriði eru mikil meginatriði og um þau verður engin sátt. Það verður aldrei nein sátt um að fara þá leið sem hér er verið að leggja til, að lögfesta það að sjávarútvegsráðherra hafi heimild til að fara 80% fram úr tillögum Hafrannsóknastofnunar eða kippa þessu mikilvæga sambandi í burtu sem ég var að lýsa áðan, augljóslega ekki.

Það eru fleiri atriði í frumvarpinu sem er rétt að gera athugasemdir við. Það er svolítið merkilegt að fylgjast með umræðunni um það heimildarákvæði sem á að setja í lög um að hæstv. sjávarútvegsráðherra geti tekið ákvarðanir um hvernig eigi að nýta ákveðnar uppsjávartegundir. Hvers vegna er þessi umræða komin upp? Hún er til komin vegna þess að við höfum þegar kemur að makrílveiðunum opinn aðgang, keppnisveiðar, ólympískar veiðar, þar sem hver sækir í kapp við annan. Hver er niðurstaðan? Hún er alveg augljós, það er illa farið með makrílinn, við nýtum hann ekki eins og best verður á kosið.

Hvað skyldi hæstv. sjávarútvegsráðherra hafa fengið í gegnum þingið hérna á dögunum nema hinar svokölluðu strandveiðar? Á hvaða meginprinsippi byggja þær? Opnum aðgangi, samkeppni í veiðunum og niðurstaðan, sem kom einmitt fram í skýrslu sem gerð hefur verið um þetta mál allt saman, er m.a. sú að þeir sem taka við þeim afla, meiri hluti þeirra sem taka við aflanum segja að aflinn standist ekki samanburð við þann afla sem fæst úr (Gripið fram í: Sóknarmark.) öðrum veiðum. Hvers vegna skyldi það vera? Vegna þess að nákvæmlega sömu lögmálin gilda um það þegar menn opna veiðarnar eins og gert hefur verið í strandveiðunum og þegar um er að ræða kappveiðar í kringum makrílinn. Lausnin er þess vegna ekki, frú forseti, og augljóslega ekki sú að koma og segja: Við ætlum að fela hæstv. sjávarútvegsráðherra það, þó að ágætur maður sé. Hann eigi bara að taka ákvörðun um það hvernig eigi síðan að fara með, í hvaða pakkningar eða í hvaða vinnslulínur makríllinn eigi að fara. Menn hljóta að sjá að það er ekki skynsamlegt fyrirkomulag í einni atvinnugrein að leggja upp með þessum hætti. Það á ekki að horfa á afleiðingar vandans og reyna að bregðast við, það á að horfa á orsök vandans og bregðast við þar, og ég mun gera það að umtalsefni nánar síðar.

Ég hef einnig bent á að ég tel að það sé óheppilegt fyrir íslenskan sjávarútveg að fara þá leið að auka veiðiskylduna svo mjög eins og lagt er til í frumvarpinu. Ég veit að ég er ekki í meiri hluta hér í þingsal með þetta og margir sem hafa aðra skoðun, en ég vil enn á ný benda á að ef við aukum veiðiskylduna, og til að auðvelda okkur hugsunina skulum við gefa okkur að við krefjumst þess að veiðiskyldan sé 100%, að allir veiði þann kvóta sem þeim er úthlutað, þá verður niðurstaðan auðvitað sú að það er allt að því ómögulegt fyrir nýliða, nema þá sem eiga peninga fyrir, að koma inn í greinina.

Þá hefur heyrst það svar sem m.a. hefur komið fram í umræðunni um skötuselinn að það sé rétt að ríkið leigi út kvóta, taki kvóta frá og leigi. Þar með er verið að brjóta þá meginreglu sem ég ræddi hér í upphafi máls míns varðandi samhengi á milli hlutdeildarkvóta og heildarafla, en gott og vel. En þá rekast menn á vandamál sem m.a. kemur fram í frumvarpinu. Þar er sagt að leigja eigi út kvótann á 120 kr. en markaðsverð á kvóta núna virðist vera, eftir því sem kom fram í ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, 330 kr. Sér það nú hvert mannsbarn, ætla ég, að þar er nokkur munur á. Má af því leiða að nokkur eftirspurn verði eftir þessum kvótum. Ég hef ítrekað kallað eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra svari því hvernig hann ætlar að fara með það ef fleiri biðja um þennan kvóta en kvóti er til fyrir. Mér reiknast svo til að það sé til kvóti fyrir ein 400 skip, ef það eru 2.000 tonn sem má úthluta. Hvernig hafði hæstv. ráðherra hugsað sér að mismuna mönnum í þessu? (Gripið fram í: Gefa hann.)

Reyndar hefur hæstv. ráðherra og margir hv. þingmenn talað um að það standi ekki til að úthluta öllum þessum 2.000 tonnum. Nú, þá er til fyrir færri, og það er þessi munur á markaðsverðinu, sem er 330 kr., og því verði sem er sett upp í frumvarpinu, 120 kr. Það að fara eigi að keyra þetta mál í gegn án þess að hafa fundið út eða velt því fyrir sér, án þess að hafa sett það nokkurn tíma niður á blað hvernig menn hyggjast leysa þetta, sem verður stórkostlegur stjórnsýsluvandi, er náttúrlega alveg furðulegt. En það endurspeglar eitt: Það að ríkið ætli sér að vera með slíka verðlagningu á gæðum sem þessum þýðir auðvitað að menn keyra sig beint út í blindgötu. Það er enginn handhafi þekkingar einn og sér, ekki einu sinni hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem veit hvert hið rétta leiguverð á að vera. Það verður annaðhvort of hátt eða of lágt, sjaldnast rétt og þá aldrei nema í nokkra stund í senn.

Þess vegna er þetta frumvarp, frú forseti, arfaslakt og arfaslæmt og það eru reyndar fleiri rök til fyrir því.