138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera mjög málefnalegur í ræðu minni hér á eftir, ég reyndi líka í gær að fara málefnalega yfir frumvarpið eins og það lítur út fyrir mér.

Að mínu viti er ekki mikill núningur á milli manna um þær breytingar sem verið er að boða hér nema um tvö atriði. Menn geta deilt um það í sambandi við línuívilnunina hvort prósentustigin eigi að vera einu fleiri eða færri og þar fram eftir götunum. Ég benti á í ræðu minni að það er líka innbyggð skekkja í slægingarstuðli gagnvart línufiski þannig að í raun og veru mætti alveg færa rök fyrir því, líkt og ég gerði í síðustu ræðu minni, að línuívilnun í dag sé yfir 20% eða 24% en gæti eftir þessa breytingu hugsanlega orðið 28%.

Ég held að ef við hefðum öll sest niður í rólegheitunum og andað í gegnum nefið, þá hefðum við hugsanlega getað náð niðurstöðu um það sem út af stendur í frumvarpinu og er ekki skynsamlegt. Þar vil ég fyrst koma inn á úthlutun á karfakvóta. Í dag erum við með 50.000 tonna karfakvóta, sem er skráður inn hvort heldur sem verið er að veiða djúpkarfa eða gullkarfa. En nái breytingin fram að ganga eins og hún liggur fyrir í þessum drögum munu hljótast af því ákveðin slys. Hins vegar hefur komið fram í máli einstakra stjórnarþingmanna að þeir hafa fullan skilning á þessum hlutum, eins og kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar hér áðan að hann hefði mikinn skilning á þessu og vildi skoða þessa hluti á milli umræðna. Eftir situr sú spurning hjá mér: Hvers vegna var það ekki gert á milli 1. og 2. umr.? En hvað um það, vandamálið snýst ekki um þetta.

Ef við breytum þessu núna með þessum hætti erum við klárlega að úthluta skipum veiðiheimildum sem þau geta ekki nýtt. Við erum að fara að breyta úthlutuninni á þann veg að þeir sem eru núna að veiða þúsund tonn, ég get nefnt sem dæmi fyrirtækið Guðmund Runólfsson í Grundarfirði sem er með u.þ.b. þúsund tonna karfakvóta og fær eftir þessa breytingu veiðiheimildir upp á um 300 tonn af djúpkarfa sem það hefur ekki möguleika á að veiða af þeirri einföldu ástæðu að útgerðin á ekki skip til að veiða upp í þær. Krafan um þessa skiptingu kemur að hluta til að sjálfsögðu frá Hafrannsóknastofnun þar sem menn vilji halda betur utan um þá veiði sem á sér stað í karfastofnunum, hvort heldur sem það er djúpkarfi eða gullkarfi, þó að menn hafi oft verið reikulir í spori að átta sig á því hvað er.

Þetta þýðir í örstuttu máli að aflaheimildir þessa ágæta fyrirtækis, sem áratugum saman hefur sérhæft sig í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á þessari afurð, eru í raun og veru skertar um 30% út af því að það fær úthlutað djúpkarfa í staðinn fyrir gullkarfann sem það hefur alla tíð veitt. Með því mun ein af grunnstoðum þessa fyrirtækis hljóta mikil afföll og það setur að vissu leyti framtíð þess í uppnám. Við megum ekki gleyma markaðsþættinum og þetta fyrirtæki hefur, eins og ég sagði áðan, sérhæft sig áratugum saman í karfaveiðum, karfavinnslu og markaðssetningu á karfa. Það er nú það sem við gleymum svo oft í þessari umræðu hve stór hluti af sjávarútveginum er markaðssetning, ábyggileg afhending á vöru, náið samstarf við kaupendur og seljendur, þessu stóra atriði gleymum við alltaf í umræðunni sem slíkri.

Þetta fyrirtæki hefur fjárfest fyrir mjög mikla peninga og einu úrræðin sem það hefur, ef þessi lög fara óbreytt í gegn, er að skipta við þá sem hafa veiðigetu í djúpkarfa, þ.e. skipta á aflaheimildum á miklu lægra gengi en er. Þess vegna hefði verið mjög skynsamlegt að fara þá leið sem bent er á í minnihlutaáliti sjávarútvegsnefndar, að menn nýttu sér þær upplýsingar sem fyrir liggja í afladagbókum viðkomandi skipa. Þá hefði verið hægt að sjá þar hvar menn eru í raun og veru að veiða og hvaða tegundir.

Síðan er líka ákveðin þversögn í þessu vegna þess að ef þetta verður að veruleika er að hluta til verið að færa störf af landi út á sjó, vegna þess að þá fara menn að veiða þetta á stærri skipum sem eru þá yfirleitt að frysta, sem gengur í berhögg við þá hugsun stjórnarliða að auka svokallaða línuívilnun, þannig að þetta rekst aðeins hvað á annars horn. Eigi að síður er það bjargföst trú mín og skoðun að ef við öndum öll aðeins í gegnum nefið og setjumst niður og ræðum málin af skynsemi og yfirvegun þá sé ekkert svo langt í milli og menn geti lent þessu máli skynsamlega.

Hitt atriðið sem ég vil koma inn á er svokölluð breyting á skötuselsákvæðinu. Skýringin á því er mjög einföld, það hefur verið vandamál á miðunum og ég lít svo á og gef mér það fyrir fram að stjórnarþingmenn hugsi um að bregðast við þeim vandamálum, ég geri ekki lítið úr því en mig hins vegar greinir á um það við hv. stjórnarþingmenn hvernig eigi að gera þetta. Hækkun á hita sjávar sem hefur orðið á undanförnum árum gerir það að verkum að skötuselurinn sækir í miklu meira mæli en áður hefur þekkst á norðurslóðir, en það þýðir ekki að allur skötuselurinn sem var við suðurströndina hafi siglt norður eftir. Það er bara að koma meiri skötuselur inn á veiðislóðina. Þannig gerist þetta. Það veiðist enn mjög vel af skötusel við suðurströndina.

Það hefði verið miklu skynsamlegra að gera þetta að meðaflareglu, þ.e. að þeir sem eru ekki á beinum skötuselsveiðum mættu vera með ákveðna prósentu til að bregðast við þessu vandamáli í svokallaðri meðaflareglu og mættu þá landa 1% til 2% í aflamarki af skötusel sem teldist ekki til aflamarks viðkomandi skips þó svo að menn hafi reyndar þessa 5% Hafróreglu sem við eða ég þekki alla vega mjög vel, menn hafa líka svigrúm þar, en þá væri hægt að gera þetta skynsamlega.

Það er líka ákveðið vandamál við grásleppuveiðar. Skötuselurinn færist með hverju árinu norðar og norðar. Fyrir örfáum árum kom hann í Breiðafjörðinn og svo koll af kolli og hann er kominn núna norður fyrir land og þetta er hlýnun sjávar. Ég get sýnt mönnum gröf um hvernig það hefur breyst.

Ég hefði talið mun skynsamlegra að gera þetta með þeim hætti að menn fengju að landa meðaflanum. Þá gætu menn sem eru á grásleppuveiðum haft aðra prósentu af því að þar er eingöngu verið að landa hrognum en ekki fiskinum í heild sinni þannig að menn yrðu að skoða það með raunhæfum hætti og ég hef engar áhyggjur af því.

Eftir situr líka að margir grásleppubátar fara á grásleppu eingöngu til að veiða skötusel. Það eru grásleppubátar sem eru innan krókaflamarksins vegna þess að þar er heimild til að veiða þessa tegund án þess að hafa kvóta og það eru bátar sem fara á grásleppuveiðar til að veiða bara skötusel upp að þessu ákveðna hámarki, menn geta skoðað þetta, og þegar þeir eru komnir upp í hámarkið fara þeir út. Þeir eru því oft og tíðum að velja síðari hluta tímabils grásleppunnar til að geta líka náð sér í skötusel þannig að margar hliðar eru á þessu máli.

Jú, þetta er fyrir nýliða og allt gott um það að segja og ég ætla ekki að taka djúpar rökræður um það, hver hefur sína skoðun á hvernig stendur á því að þeir sem vilja gera út og byrja útgerð frá Hornafirði allt að Reykjanesi mega það ekki, en í þessu frumvarpi hafa menn tileinkað sér með ákveðnum línum þau svæði þar sem skötuselurinn er byrjaður að veiðast og þá verður til þessi viðmiðun. Það sem stendur eftir í mínum huga og stærsta spurning mín er þessi: Hvernig stendur á því að þeir sem vilja gera út á svæðinu frá Hornafirði til Reykjaness mega ekki nýta heimildirnar úr þessum potti líka?

Mér finnst þetta vera gróf mismunun gagnvart þeim sem vilja gera út á þessu svæði. Mér finnst að menn sem eru að byrja og vilja fara í skötuselsveiðar megi það hvort sem þeir búa á Hornafirði, í Þorlákshöfn eða Vestmannaeyjum frekar en einhvers staðar við Breiðafjörð. Þetta held ég að mönnum hafi yfirsést. Mér finnst ákveðin mismunun vera innbyggð í þessu, en ég ítreka og segi það hér sem mín lokaorð: Ef við setjumst niður og öndum með nefinu þá er nú ekki svo langt á milli og festumst ekki í þessum pólitísku hjólförum og verum frekar lausnamiðuð í málunum.