138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að sjávarútvegurinn er að mínu viti hátækniiðnaður og hátæknigrein. Í honum starfa öflugir aðilar, það eru um 8 þúsund störf í þessari grein, 16 þúsund afleidd störf væntanlega. Eins og fram kom hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skapar þessi grein líklega 40% gjaldeyristekna okkar í dag.

Sjávarútvegurinn er í dag einhver mikilvægasta atvinnugrein okkar og skapar þjóðinni gríðarlega mikinn arð. Mér finnst ekki sanngjarnt að tala á þann veg að sjávarútvegurinn skili ekki neinum arði til þessa samfélags. Það er gríðarlegur arður sem kemur úr sjávarútveginum inn í samfélögin í landinu, inn í þjóðarbúið í heild. Hægt er að sýna fram á það með mjög einföldum hætti með því að skoða einfaldlega opinbera vefi Hagstofu og annarra aðila.

Að þjóðin njóti arðsins — ef við erum einfaldlega að tala um að borgað sé hærra leigugjald fyrir aflaheimildirnar en er í dag, ef málið er ekki flóknara en það, þá eigum við að ræða það á þeim grunni. Það getur vel verið að útgerðin þoli að borga hærra leigugjald fyrir nýtingarréttinn. En ég tek ekki undir það og tek ekki þátt í umræðum ef því er haldið fram að sjávarútvegurinn skili ekki þjóðarbúinu tekjum eða arði, það er einfaldlega rangt. Það er líklega engin atvinnugrein sem er okkur eins mikilvæg ef við horfum á stöðuna í dag og til framtíðar.