138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[16:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ósættið er auðvitað um eignarhaldið og auðlindagjaldið sem fram að þessu hefur verið hverfandi, nam á síðasta ári hygg ég nokkur hundruð millj. á meðan tekjur greinarinnar á því ári einu voru að aukast um 50 þúsund millj. Það gjald var aldrei til þess fallið að skapa neina sátt um greinina.

Það er ríkur vilji meiri hluta þjóðarinnar að gera breytingar í þessu efni. Hér fóru fram kosningar í landinu þar sem tekin var afstaða, m.a. til þeirrar stefnu sem menn kynntu í þessum málum, og stjórnarflokkarnir kynntu nánast samhljóða stefnu um þær breytingar sem gera ætti og lýðræðisleg niðurstaða úr þeim alþingiskosningum liggur fyrir og það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn fylgi fram þeim lýðræðislega vilja sem legið hefur fyrir í áratugi og náði loks fram að ganga á flokkagrundvelli í síðustu alþingiskosningum og nýtur enn samkvæmt skoðanakönnunum fylgis meiri hluta þjóðarinnar.