138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

305. mál
[18:00]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp eiginlega ekki til að andmæla málflutningi hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar heldur eiginlega frekar til þess að lýsa því að ég hef skilning á þeim sjónarmiðum sem hann setur fram í greinargerð með því frumvarpi sem liggur fyrir. Efni frumvarpsins er auðvitað nátengt efnistökum þess frumvarps sem ég mun mæla fyrir á eftir sem hefur það að markmiði að opna frekar á þann möguleika að ráðherra geti heimilað vísindaveiðar þar sem möguleiki sé á því að tengja nánar saman en verið hefur annars vegar vísindin, hin akademísku rannsóknavísindi, og hins vegar reynsluvísindin, þ.e. þekkingu sjómanna og þeirra sem eru að störfum úti á miðunum.

Þess vegna fagna ég því að þessi tvö frumvörp skuli koma hér til umræðu í raun samtímis. Ég held að það sé þarft að þau séu rædd í samhengi og samtímis í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og hyggst leggja mitt af mörkum til þess að hægt sé þá að samþætta þau á einhvern hátt þannig að það geti komið góð niðurstaða úr því.