138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

305. mál
[18:01]
Horfa

Flm. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðbrögðum hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur vegna þess að það er enginn ágreiningur um þetta á milli okkar greinilega og ég mun fylgjast með af athygli og skoða mjög vel mál hennar sem snýr að vísindaveiðum.

Ég held hins vegar að við þær aðstæður sem við búum í dag og höfum reyndar búið mjög lengi sé mjög mikilvægt að við nýtum alla þá þekkingu og reynslu sem við höfum í greininni til þess einmitt að skila okkur fram á veginn og það er svo margt. Við dettum oft í þann farveg að rífast kannski eingöngu um þorskinn og þar fram eftir götunum, við þurfum að taka miklu heildstæðara á þessu.

Ég þekki það mjög vel, sem búinn er að starfa í mörg ár sem skipstjóri, að maður veit oft á kvöldin þegar maður kemur í land að það hefði verið skynsamlegra að fara hér eða þar, skynsamlegra hefði verið að fara austur eftir frekar en vestur eftir. Við sjáum bara það umhverfi sem við lifum í, þetta er svo breytilegt, ástandið í hafinu. Maður getur róið allt heila haustið og ekki fengið í soðið eins og til að mynda á dragnót. Svo gerir vont veður í einn dag og þá eru allir bátar fullir, næsta dag á eftir er akkúrat ekki neitt. Maður sér engar lóðningar eða hvar fiskurinn er, maður veit ekki af því að þegar kemur vont veður þá muni lóðningarnar sem eru uppi í sjó fara niður á botn. Það er rosalega margt í þessum vísindum sem við skiljum hugsanlega ekki, það er kannski gott, annars værum við mögulega búin að veiða síðasta fiskinn. En við þurfum að nýta þekkinguna.

Það er líka dálítið sérkennilegt við núverandi aðstæður að þegar tekin var ákvörðun um heildaraflamagnið á þessu ári hefði ég talið skynsamlegra að menn hefðu gefið út bráðabirgðatölur og sest síðan yfir gögnin vegna þess að við búum við mjög sérstakar aðstæður í dag. Menn hefðu þá gefið sér tíma til að skoða þau án þess að vera með neina fordóma eða fyrir fram gefnar niðurstöður og farið yfir þetta af skynsemi í rólegheitum, það hefði skilað okkur betur áfram í þeirri vinnu sem við erum í.