138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

359. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru Valgerður Bjarnadóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Fyrsta grein er svohljóðandi:

„Við 1. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að setja frekari ákvæði um tilhögun slíkra vísindaveiða í reglugerð.“

Hér er nánar tiltekið verið að vísa til þeirrar heimildar í núgildandi lögum að ráðherra geti — nú vantar mig lögin, afsakið, frú forseti, má ég yfirgefa ræðustól? Ert þú með þetta? Takk. Nei, mig vantar núverandi fiskveiðistjórnarlög, má ég yfirgefa ræðustól hálfa sekúndu?

(Forseti (SF): Við skulum bara bjarga þessu.)

Já, þakka þér fyrir.

Tilgangurinn með breytingunni — á meðan þingvörður aðstoðar mig við að finna þetta — já, takk, hér er þetta, takk fyrir.

Ég biðst velvirðingar á þessu en nú er ég komin með gögnin. Hér er um að ræða breytingu á málsgrein í núgildandi lögum, þ.e. 1. mgr. 3. gr. laganna, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðherra skal, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstökum nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á. Heimildir til veiða samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn. Afli sem veiddur er í rannsóknarskyni á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar reiknast ekki til heildarafla.“

Síðar segir:

„Þá er ráðherra heimilt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar að ákveða að afli sem fenginn er við vísindalegar rannsóknir annarra aðila skuli ekki að hluta eða öllu leyti reiknast til heildarafla.“

Þetta er sú grein sem til umræðu er og breytingartillaga frumvarpsins gerir ráð fyrir eftirfarandi viðbót:

„Ráðherra er heimilt að setja frekari ákvæði um tilhögun slíkra vísindaveiða í reglugerð.“

Þessi breyting lætur lítið yfir sér og virðist ekki þung á vogarskálum en hún er þýðingarmikil engu að síður vegna þess að með breytingunni er í reynd verið að gera þetta umrædda ákvæði víðtækara og skilvirkara en verið hefur þannig að veiðar samkvæmt ákvæðinu geti nýst til frekari gagnaöflunar og aukið þann þekkingarforða sem Hafrannsóknastofnun byggir veiðiráðgjöf á og stjórnvöld ákvarðanir um nýtingu fiskstofnanna við landið.

Breytingin miðar að því að tryggja að vísindaveiðar fari fram undir vísindalegri stjórn á vettvangi hefðbundinna veiða þar sem stuðst er við rannsóknargögn, fengin á vettvangi, og þar sem reynsla og þekking sjómanna nýtist við vísindalega úrvinnslu þeirra gagna sem verða til við veiðarnar. Þar með er unnt að taka mið af reynslu og þekkingu sjómanna á Íslandsmiðum sem mikilsvert er að nýtist við mat á fiskstofnunum við landið um leið og stjórnvöld hafa þá einnig gleggri upplýsingar að miða við þegar ákvarðanir eru teknar um aflamark fisktegunda og sjálfbæra nýtingu fiskstofnanna. Til að tryggja sem breiðastan þekkingargrunn fyrir stjórnvöld og Hafrannsóknastofnun að vinna með má gera ráð fyrir því að yfirumsjón slíkra veiða verði á höndum sjálfstæðra vísindastofnana, hérlendra eða erlendra, sem ýmist starfa sjálfstætt eða í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og útvegsmenn.

Gert er ráð fyrir að kostnaður af vísindaveiðum verði greiddur með tekjum af afla sem fæst við veiðarnar.

Tölur Hafrannsóknastofnunar um stofnstærðir helstu nytjastofna í hafinu sýna að spár stofnunarinnar hafa gengið misvel eftir í áranna rás, eins og var reyndar hér til umræðu rétt áðan. Veiðar á Íslandsmiðum eru nú einungis lítill hluti af því sem var á níunda áratug síðustu aldar þegar árlega voru veidd hér við land 300–500.000 tonn. Á þarsíðasta ári, þ.e. 2008, var heildarafli úr íslenska þorskstofninum aðeins 147.000 tonn, en það er minnsti ársafli í hartnær 70 ár.

Þetta sveiflukennda mat á stofnstærðum í hafinu hefur leitt til áralangs ágreinings um aflaráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og árlega ákvörðun stjórnvalda um úthlutun aflamarks. Auk gagnrýni frá sjómönnum hafa komið fram efasemdir frá fiskifræðingum um ágæti hefðbundinna aðferða við fiskveiðistjórn. Sú staðreynd gefur stjórnvöldum tilefni til þess að kalla eftir ítarlegri gagnaöflun og skapa skilyrði til þess að breikka þekkingargrunninn um ástand fiskstofnanna við landið.

Í því sambandi má líta til þróunarinnar í Barentshafi þar sem rannsóknir hafrannsóknastofnunarinnar í Murmansk hafa leitt í ljós að þorskstofninn í Barentshafi er umtalsvert stærri en áður var talið. Þær niðurstöður fengust með því að vísindamenn fylgdust náið með fiskiskipum að veiðum, aflabrögðum þeirra og yfirborðshita og ástandi sjávar hverju sinni. Tekið var tillit til þess við úrvinnsluna hvernig skip voru á veiðum á hverjum stað, gerðar veiðarfæranna, toghraða og afla á togtíma. Niðurstaða mælinganna gaf til kynna að þorskstofninn í Barentshafi væri meira en helmingi stærri en Alþjóðahafrannsóknastofnunin hafði áður talið.

Þarna var í reynd um að ræða vísindaveiðar af þeim toga sem lög um stjórn fiskveiða heimila og nánar er þá kveðið á um í fyrirliggjandi frumvarpi.

Með þeirri breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem frumvarpið kveður á um væri ráðherra heimilt að leyfa takmörkuðum fjölda íslenskra fiskiskipa — togara, línubáta, snurvoðarbáta, netabáta og handfærabáta — að veiða frjálst í tiltekinn tíma og safna um leið mikilvægum upplýsingum til þess að byggja veiðiráðgjöf og ákvarðanir á. Þarna gætu akademísk vísindi og reynsluvísindi sameinast á árangursríkan hátt. Þess má geta að þetta er í fullu samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar þar sem lögð er sérstaklega áhersla á það að taka í ríkari mæli tillit til aflaráðgjafar og reynslu sjómanna

Mikið er í húfi. Fiskimiðin við landið eru okkar verðmætasta auðlind. Það hefur aldrei verið brýnna en einmitt nú að nýta auðlindirnar með sjálfbærum hætti þannig að arðsemi þeirra renni inn í þjóðarbúið. Það hefur heldur aldrei verið brýnna að ná sátt um málefni þeirrar undirstöðuatvinnugreinar sem sjávarútvegurinn er. Til þess að það megi takast þarf þó að liggja fyrir þekking á auðlindinni og þeim möguleikum sem í nýtingu hennar eru fólgnir.

Þannig verður helst uppfyllt það markmið fiskveiðistjórnarlaga að „stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu“ fiskstofna og tryggja með því „trausta atvinnu og byggð í landinu“.