138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

árlegur vestnorrænn dagur.

311. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar ásamt hv. þingmönnum Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, Atla Gíslasyni, Árna Johnsen, Sigurði Inga Jóhannssyni og Þráni Bertelssyni um árlegan vestnorrænan dag, svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um stofnun vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega til skiptis í einu vestnorrænu landanna.“

Tillaga þessi var áður lögð fram á 136. löggjafarþingi og er hún nú endurflutt lítillega breytt. Tillagan er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 4/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

„Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að stofna til vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur lokahelgi ágústmánaðar hvers árs til skiptis í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi frá og með árinu 2010. Vestnorræna ráðið hvetur stjórnvöld landanna til að skipuleggja daginn í samvinnu við Vestnorræna ráðið, ræðis- og sendiskrifstofur, borgaryfirvöld, ferðamálaráð og listastofnanir, og stjórnendur Norrænu húsanna í hverju landi fyrir sig.

Hugmyndin um vestnorrænan dag, sem haldinn verði hátíðlegur árlega á Vestur-Norðurlöndunum til skiptis, á rætur sínar að rekja til vestnorræna dagsins sem haldinn var hátíðlegur í annað sinn helgina 26.–27. apríl 2008 á Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn. Meðan á helgarhátíðinni stóð var hvert Vestur-Norðurlanda með sinn eigin landkynningarbás þar sem tónlistaratriði voru flutt, auk þess sem sala fór fram á mat og öðrum vörum.

Markmið vestnorræna dagsins á Vestur-Norðurlöndunum yrði að marka vestnorræna sögu og menningu í löndunum sjálfum og auka þar með samband þeirra og samkennd.

Ráðið hvetur stjórnvöld landanna til að skipa verkefnastjóra innan menningarmálaráðuneytis hvers lands sem hafi það hlutverk að vinna að undirbúningi dagsins í samvinnu við Vestnorræna ráðið, ræðis- og sendiskrifstofur, borgaryfirvöld, ferðamálaráð og listastofnanir, og stjórnendur Norrænu húsanna í hverju landi fyrir sig.

Lagt er til að halda vestnorræna daginn í fyrsta sinn hátíðlegan lokahelgi ágústmánaðar árið 2010 í einu vestnorrænu landanna í tengslum við fyrirhugaða útgáfu bókar um sameiginlega sögu og menningu Vestur-Norðurlanda sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Lagt er til að haldið verði upp á daginn með hátíð sem samanstandi af margs konar listviðburðum, kynningu á matarmenningu þjóðanna, tónlistarhefðum og íþróttum.

Mælt er með að fyrsti undirbúningsfundur að stofnun vestnorræna dagsins fari fram á vegum menningarmálaráðuneyta landanna og Vestnorræna ráðsins eigi síðar en fyrir þinglok vorið 2009.“

Þannig hljóðar, frú forseti, ályktun Vestnorræna ráðsins sem er í reynd greinargerðin með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.