138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.

312. mál
[18:40]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Við ágæta framsögu hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, formanns Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, hef ég litlu að bæta, ég tek undir hvert einasta orð sem þar hefur komið fram. Ég vil þó halda því til haga að hér er hreyft mikilvægum málum sem hafa verið til umræðu og samþykkt ýmist á ársfundum Vestnorræna ráðsins og/eða á þemaráðstefnum ráðsins.

Að baki þessum tillögum liggur ítarleg fagleg vinna og eins og ég sagði áðan ítarlegar umræður og einhugur allra fulltrúa í ráðinu, hvort sem þeir koma frá Íslandi, Grænlandi eða Færeyjum. Þetta samstarf er afar ánægjulegt og að mínu mati enn fremur afar mikilvægt. Dregið hefur verið úr framlögum til starfsemi Íslandsdeildarinnar nú, því miður, tímabundið og vænti ég þess að á því verði breyting hið fyrsta vegna þess að við gegnum þarna mikilvægu hlutverki, við erum eins konar stóri bróðir eða stóra systir í þessu samstarfi og mjög leiðandi og þetta samstarf hefur leitt af sér mörg þörf mál eins og hér eru á dagskrá.

Það sama og ég segi hér gildir auðvitað um þær tillögur sem eru á dagskrá á eftir. Ég vænti þess, eins og hér hefur komið fram, að utanríkismálanefnd afgreiði þessi mál sem fyrst frá sér, þannig að þinginu takist að samþykkja þessar þingsályktanir fyrir þinglok.