138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss.

108. mál
[18:51]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru hv. þingmenn Árni Johnsen, Ragnheiður E. Árnadóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðrún Erlingsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Margrét Tryggvadóttir og Atli Gíslason eða allir hv. þingmenn Suðurkjördæmis sem áttu sæti á þingi þegar tillagan var lögð fram.

Þingsályktunartillagan felur það í sér að Alþingi álykti að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og jafnframt meta kostnað við slíka framkvæmd. Úttekt á framkvæmdinni og kostnaðarmat skuli liggja fyrir 1. mars 2010.

Tillaga þessi var áður flutt á 132. löggjafarþingi og jafnframt á 133. löggjafarþingi og var 1. flutningsmaður tillögunnar í það skipti hv. þáv. þm. Kjartan Ólafsson.

Tilgangurinn með þessu er sá að reyna að greiða fyrir gangandi umferð yfir Ölfusá. Það háttar þannig til á Selfossi að það er byggð beggja vegna brúarinnar sem er gömul en stendur ágætlega fyrir sínu. Engu að síður var gripið til þeirra ráðstafana, til þess að tryggja öryggi gangandi vegfarenda, að koma fyrir göngubraut á brúnni og þrengja þar með akstursleiðir bifreiða.

Þannig háttar til að það er gríðarlega mikil umferð þarna í gegn enda Suðurland vinsæll áfangastaður hjá þeim sem ferðast um landið og nú eftir að Íslendingar fóru að ferðast meira innan lands er oft og tíðum þannig ástatt að langar raðir myndast við Selfoss vegna þess að erfitt er að keyra yfir brúna og yfir það hringtorg sem tekur við að henni lokinni. Nokkuð hefur verið um árekstra og skemmdir á bifreiðum við þessi tilefni þar sem vegurinn er gríðarlega þröngur og sérstaklega á það við þegar stór ökutæki eiga ferð þarna um. Þetta er því ekki síður umferðaröryggismál en gott mál fyrir samfélagið í heild sinni.

Þegar Ölfusá var brúuð við Selfoss myndaðist strax byggð sunnan árinnar og þar er meginíbúðarbyggðin auk þess sem aðalatvinnustarfsemin hefur verið sunnan árinnar, en íbúðarbyggðin hefur nú jafnframt færst þar yfir. Þess vegna leggur gríðarlega margt fólk leið sína yfir brúna bæði til þess að sækja vinnu og eins til að komast í útivistarsvæði sem er hinum megin en það er Hellisskógur, sem er eitt aðalútivistarsvæði Selfoss og er norðan Ölfusár.

Frú forseti. Um alllangt skeið hefur legið fyrir í aðalskipulagi að ný brú yrði byggð yfir Ölfusá við Laugardæli og þar með yrði þungaflutningum beint norður og austur fyrir Selfoss. Þessi brú er ekki enn komin til framkvæmda en vegna þessarar miklu umferðaraukningar verður það væntanlega innan nokkurra ára. Engu að síður er gríðarlega brýnt að leysa þá áhættu sem íbúar og gestir þeirra búa við bæði þeir sem ganga yfir brúna og ekki síður þeir vegfarendur sem aka yfir hana í þessum þrengingum.

Þess vegna leggjum við þingmenn kjördæmisins þessa tillögu fram með það að markmiði að það verði skoðað hvort þetta sé góður kostur, hvernig brúnni yrði best við komið og jafnframt að verkið verði kostnaðarmetið. Það er gríðarlega mikilvægt, ekki síst á tímum sem nú, að við gerum okkur grein fyrir því áður en lagt er af stað í vegferð sem þessa hversu mikill kostnaður fylgi í kjölfarið. Það gera sér allir grein fyrir því að það eru erfiðir tímar en við erum engu að síður ekki hætt að hugsa um umferðaröryggismál. Við erum ekki hætt að hugsa um þau mál sem eru samfélaginu og þjóðinni til heilla.

Ég vonast til að þessi þingsályktunartillaga fái góða umfjöllun í samgöngunefnd þar sem hún verður væntanlega rædd. Ég vonast til að hún nái fram að ganga hér á þessu þingi vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir alla þá fjölmörgu Íslendinga sem leggja leið sína á Suðurland.