138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

orð ráðherra um sjávarútvegsfyrirtæki.

[13:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir hrós hv. þingmanns um íslenskan sjávarútveg sem hefur um margt starfað vel. Vissulega er það þannig að sjávarútvegur hefur verið einn af hornsteinum verðmætasköpunar á Íslandi á undanförnum áratugum. (Gripið fram í.) En það er ekki þar með sagt að ekki megi gagnrýna sjávarútveginn og það er heldur ekki þar með sagt að ekki geti orðið eðlileg skoðanaskipti milli fólks í þessu landi.

Það sem ég var að vísa til í því viðtali sem hv. þingmaður rekur er sú staðreynd að við erum auðvitað og höfum verið á undanförnum missirum að fást við rekstrarvanda í sjávarútvegi sem er fyrst og fremst vegna skuldsetningar í greininni sem ekki hefur byggst á verðmætasköpun í greininni sjálfri heldur hafa menn verið að skuldsetja fyrirtæki með braski í allt öðrum atvinnugreinum. Þetta er einfaldlega staðreynd. Allir þekkja þessa staðreynd og það er sérkennilegt ef ekki má tala um hana eins og hún liggur fyrir.

Annað sem ég rakti í þessari grein eru hin mismunandi sjónarhorn sem við höfum á gjaldmiðilsmáli eftir því hvort við erum almennt launafólk og þurfum að upplifa kjaraskerðingu vegna þessa veika gjaldmiðils, vegna hækkunar lána okkar og vegna hækkunar almenns verðlags, eða hvort við erum svo heppin að vera sægreifar og fá þar af leiðandi afkomubata í okkar vasa sem almenningur í landinu borgar fyrir með gengisfellingum með reglulegu millibili. Það er auðvitað aðstöðumunur í landinu sem ég talaði líka um. Það er aðstaða sem mér finnst ekki vera þess eðlis að við getum búið við lengur. Útgerðin hefur af gjaldmiðilsmálum allt aðra hagsmuni en almenningur í landinu. Útgerðinni gengur betur núna en fyrir þann afkomubata hefur almenningur á Íslandi borgað dýru verði í hækkuðu verðlagi (Forseti hringir.) og hækkuðum lánum vegna gengisfalls krónunnar.