138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

sameining ráðuneyta.

[13:59]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Í lok seinasta mánaðar ræddi hæstv. forsætisráðherra hér á Alþingi við flokkssystur sína, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, um sameiningu ráðuneyta. Inntakið í svari ráðherrans var á þá leið að til stæði að sameina ráðuneyti sem allra fyrst og gilti engu um þótt hluti þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs væri því andvígur. Fyrir liggur að landbúnaður og sjávarútvegur muni á næstu árum gegna mikilvægara hlutverki en nokkru sinni fyrr við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og afla gjaldeyristekna til að standa undir skuldbindingum hennar. Það er því mikilvægt að leggja meiri áherslu en minni á þennan málaflokk nú.

Í annan stað er þekkt staðreynd að sameining og endurskipulagning ríkisstofnana tekur verulegan tíma og orku frá öðrum verkefnum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð í eitt árið 2007 en það var fyrst árið 2009 að hið sameinaða ráðuneyti flutti undir eitt þak. Að byrja á ný á sameiningu nú væri fráleitt, ekki síst á sama tíma og stjórnvöld hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu þar sem sjávarútvegur og landbúnaður eru umfangsmiklir og erfiðir málaflokkar að fást við. Að ætla sér að endurskipuleggja ráðuneytið á sama tíma og það þarf að nota alla sína orku í að verja hagsmuni Íslands mun aðeins valda málaflokknum tjóni. Undanfarið hafa borist ályktanir frá fjölmörgum hagsmunaaðilum í landbúnaði og sjávarútvegi auk sveitarstjórna víða um land þar sem þessu er harðlega mótmælt. Þess vegna spyr ég: Hyggst hæstv. forsætisráðherra taka mark á þessum tilmælum og fresta eða fella niður áform um sameiningu ráðuneyta og óttast ráðherrann ekki að sameining á þessum tímapunkti geti skaðað eða veikt þá vinnu sem á sér stað vegna yfirvofandi aðildar að Evrópusambandinu?