138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

sameining ráðuneyta.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég er þó ekki sammála því hvernig hann setur fram varðandi það að hér verði stofnað til atvinnuvegaráðuneytis. Þetta hefur reyndar lengi staðið til og verið áhugamál margra en eins og kom fram í orðum hv. þingmanns eru margir líka á móti þessu. Engu að síður er þetta nokkuð sem samið er um í samstarfi þessara tveggja flokka og þeirri vinnu verður haldið áfram, að vinna að sameiningu þessara tveggja ráðuneyta. Er sú vinna í gangi. Ég geri mér alveg ljóst að það er andstaða við þetta, ekki bara í flokki framsóknarmanna heldur er það líka að hluta til hjá vinstri grænum.

Ég tel þó enga ástæðu til að óttast, eins og hv. þingmaður gerir, að setja saman aðildarumsókn okkar að ESB og sameiningu á ráðuneytum og að hagsmuna okkar verði eitthvað verr gætt gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði ef þetta verður sameinað í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég sé ekki nein rök fyrir slíkri ályktun af stofnun eins ráðuneytis. Ég geri mér vissulega grein fyrir mikilvægi sjávarútvegsins og mikilvægi þess að vel sé þar haldið á málum í aðildarviðræðum okkar og ekki síður í landbúnaðinum eins og hv. þingmaður nefnir, en ég tel ekki nokkra ástæðu til að óttast að það verði verr gert með stofnun á einu ráðuneyti þar sem þessir málaflokkar koma saman og sé þess vegna enga ástæðu til að fresta stofnun þessa ráðuneytis. Þvert á móti held ég að við getum með betri hætti haldið á málstað okkar með stofnun eins ráðuneytis.