138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

sameining ráðuneyta.

[14:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað vitað að öll sameining og hagræðing þegar verið er að sameina stofnanir og ráðuneyti tekur tíma og það tekur líka tíma fyrir aukna hagræðingu og sparnað að skila sér. Ég get alveg tekið undir það, en þetta hefur lengi verið á döfinni og við vitnuðum í ólík sjónarmið að því er þetta varðar. Vissulega er hlustað á ólík sjónarmið í ráðuneytunum hjá þeim sem að þessu vinna og hlustað á þær skoðanir sem þessir aðilar hafa fram að færa. En það hefur ekkert komið fram enn þá sem segir okkur að við séum á rangri braut í þessu, þvert á móti.

Hv. þingmaður spyr: Er hægt að spara í fjármunum? Það er verið að skoða það samhliða því að við vinnum að undirbúningi þessa frumvarps. Í sumum tilvikum er erfitt að átta sig á því en í öðrum ekki og það verður reynt að nálgast þau eins vel og hægt er (Forseti hringir.) áður en þetta frumvarp verður lagt fram sem ég vona að verði á þessu þingi og helst að við getum gert það að lögum á þessu vorþingi.