138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. A-liður þessarar greinar er sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn. Þessi grein stuðlar að því að spilla markaðsstarfi, eykur sóun og dregur úr hagkvæmni fiskveiðistjórnarkerfisins.

Í B-liðnum er hækkað hlutfall í línuívilnun án þess að línuívilnunarpotturinn sé aukinn. Þess vegna er verið að blekkja með því að láta í veðri vaka að línuívilnunin sé aukin í raun. Svo er ekki.

Í þriðja lagi er þessi dæmalausa forræðishyggja, ofstjórn og miðstýringarárátta ríkisstjórnarinnar sem lýsir sér í því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur að hann sé betur til þess fallinn að ákveða hvernig skipuleggja skuli vinnslu í einstökum uppsjávartegundum en þeir sem fást við þessa hluti á degi hverjum. Það er ótrúlegt að þetta skuli vera gert í frumvarpi á árinu 2010 og sýnir hversu mjög menn eru gengnir (Forseti hringir.) í björg í þessum efnum.