138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér erum við í raun og veru að greiða atkvæði um ákvæði til bráðabirgða I sem hefur mestum deilunum valdið. Þetta ákvæði frumvarpsins er algjörlega dæmalaust. Því er ætlað að mæta tilteknum vanda sem hefur hlotist af því að útbreiðsla ýmissa fisktegunda hefur breyst á undanförnum árum. Það á t.d. við um skötusel en einnig ýmsar aðrar tegundir, ýsu, síld, ufsa og fleiri tegundir sem nefna mætti. Hér er sérstaklega tekið á máli sem snýr að skötuselnum og það er gert með svo önugum og undarlegum hætti að það hefur valdið stórstyrjöld innan sjávarútvegsins.

Við leggjum hins vegar til að fara einfaldari leið að þeim vanda sem við er að glíma með því að opna möguleika á svokölluðu meðaflaákvæði sem mundi leysa úr þeim vanda sem við er að glíma. Ég trúi því ekki að ríkisstjórnin, sem í orði kveðnu hefur boðað frið um endurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins ætli að halda til streitu (Forseti hringir.) þessu heimskulega máli sínu og reyni ekki þess í stað að fylgja því að opna möguleika á meðaflareglu sem leysir vandann að langmestu leyti.