138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Verið er að greiða atkvæði um ákvæði til bráðabirgða sem að útilokar alla þá sem stunda veiðar í Suðurkjördæmi. Ég á dálítið erfitt með að skilja að hv. þingmenn Suðurkjördæmis skuli greiða atkvæði með því að allar þær útgerðir sem starfa frá Hornafirði að Reykjanesi megi ekki sækja í þennan pott. Ég spyr: Stenst það stjórnarskrána að maður útiloki þarna alla þá sem búa á þessu svæði frá því að sækja í þennan flokk? Hugmyndafræðin í því að bæta við sig skötuselskvóta er sú að bregðast við útbreiðslunni. En það gerist ekki þannig, virðulegi forseti, að allur skötuselurinn sem var við Suðurlandið hafi synt norður eftir. Hann er enn þá þar. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti: Hvernig geta hv. þingmenn Suðurkjördæmis greitt atkvæði um að útiloka Suðurkjördæmi frá því að sækja um úr þessum réttláti potti, að þeirra mati?