138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:17]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Sú staða efnahagsmála sem blasir við íslenskum almenningi er að hverjir á fætur öðrum fá mestu óráðsíumenn Íslandssögunnar skuldauppgjöf og þeim eru afhent sömu fyrirtæki og þeir keyrðu á bólakaf með þeim makalausu rökum að engir aðrir kynnu jafn vel og þeir að stýra þessum fyrirtækjum.

Það sér ekki fyrir endann á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar, en fólk er farið að spyrja hvort þeim muni ljúka í þeim dramatíska hápunkti að Björgólfs-feðgum verði afhentur á nýjan leik lykillinn að Landsbankanum með blessun ríkisstjórnarinnar. Gagnvart fjárglæframönnum skortir ekkert upp á hjálpsemi stjórnarinnar, en skilningur sömu stjórnar á skuldavanda heimilanna virðist hins vegar miðast við að reikna út einhverjar flóknar lágmarksaðgerðir og kalla þær skuldajöfnun. Sú skuldajöfnun er hugsuð handa þeim sem hafa ekki efni á að hafna henni og er ætluð til að lengja í hengingaról þeirra, en hún er ekki ætluð til að hlífa þeim við gálganum.

Það sem stjórnin virðist ekki skilja er að réttlæti snýst ekki bara um að gera fólki kleift að standa í skilum sem allra lengst með afborganir af lánum sem hafa tekið stökkbreytingum vegna langvarandi stjórnleysis í efnahagsmálum og þess efnahagshruns sem óhjákvæmilega fylgir í kjölfarið. Nauðsynlegt réttlæti snýst um að fella niður hluta af þeim stökkbreyttu veðlánum sem eru að sliga almenning. Það er réttlætismál sem allir eiga að sjá að afskrifa þarf a.m.k. 25% eða þar um bil af hverju einasta verðtryggðu láni sem hvílir á herðum íslenskra heimila. Það er líka réttlætismál að afskriftirnar geti hæst numið ákveðinni upphæð sem gæti verið einhvers staðar á milli 15 og 20 millj. kr.

Fólk er búið að fá nóg af hagfræðilegum orðavaðli, talnaleikfimi og innyflaspám um efnahagsmál. Fólk spyr um réttlæti. Umfram allt annað er það réttlæti sem gerir land okkar byggilegt. Með lögum skal land byggja.

Hvað verður um fyrirtækin í þessu landi þegar fólkið er flúið til útlanda? Við höfum fengið að lifa eina búsáhaldabyltingu. Ef sú stjórn sem nú situr sýnir ekki af sér meiri röggsemi og réttlætiskennd en sú sem síðast sat er önnur búsáhaldabylting ekki aðeins líkleg, heldur óumflýjanleg. Hún er ekki hugsanlegur möguleiki, heldur aðeins tímaspursmál.