138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Í ræðu sinni áðan lýsti hæstv. fjármálaráðherra því hvaða jákvæðu merki hann teldi vera í íslensku efnahagslífi. Það var ágætt og það er vel. En öll þau dæmi sem hæstv. ráðherra tiltók áttu rót sína að rekja til þess að gengi íslensku krónunnar hefur hrunið. Þess vegna blómstra útflutningsgreinarnar og þess vegna er innlend framleiðsla í skjóli fyrir erlendum innflutningi. Það er þess vegna, frú forseti, sem atvinnuleysið hefur ekki orðið meira en raun ber vitni og er það þó nógu mikið samt.

Hæstv. fjármálaráðherra láðist hins vegar að geta þess að ein ástæða þess að atvinnuleysið hefur ekki orðið meira er einmitt sú að fólk hefur flutt frá Íslandi. Það er skynsamlegt og rétt að taka tillit til þess í tölunum þegar menn reyna að meta stöðu íslenskra efnahagsmála. Það er ekki bara hvert skráð atvinnuleysi er, heldur hversu mikið atvinnan hefur minnkað í landinu. Það er það sem skiptir máli, frú forseti.

Þegar við horfum á atvinnuleysið er stærstur hluti þess, langstærstur hluti reyndar, á hinum almenna markaði. Fram undan eru óumflýjanlegar niðurskurðaraðgerðir hjá ríkissjóði. Það mun þýða að opinberir starfsmenn munu missa atvinnu. Undan því verður ekki vikist. Þá verður að vera möguleiki fyrir þá sem fara úr störfum hjá hinu opinbera að finna sér störf við hæfi í almenna geiranum.

Því miður eru þessari ríkisstjórn mjög mislagðar hendur þegar kemur að hinum almenna markaði. Skattahækkanir eru ekki til þess fallnar að skapa ný störf í efnahagslífinu. Þessir háu vextir sem enn þá eru drepa niður alla nýsköpun og koma í veg fyrir fjárfestingu í nýjum atvinnutækifærum. Ríkisstjórnin hefur farið þannig fram gegn einni helstu atvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútvegi, að það skapar ekki þann frið og það öryggi sem þarf að vera til að hægt sé að fjárfesta í þeirri grein. Er þó mjög mikilvægt fyrir íslenskt þjóðarbú að svo sé gert.

Svona getum við talað áfram um hvernig ríkisstjórnin hefur staðið í vegi fyrir því að auðvelda og hliðra til fyrir því að hér komi inn erlend fjárfesting í orkufrekum iðnaði. Seinagangurinn og sleifarlagið í því að leysa skuldavanda heimilanna er orðið yfirgengilegt.

Þess vegna hljótum við nú að krefjast þess að ríkisstjórnin grípi til þeirra efnahagsaðgerða sem eru nauðsynleg til þess að rífa okkur upp úr þeirri lægð sem við erum nú í. Það sem gert hefur verið hefur flestallt gengið íslensku atvinnulífi í mót og nægir til þess að vitna hver afstaða Samtaka atvinnulífsins er og afstaða Alþýðusambands Íslands og hvernig hún hefur birst í ummælum forustumanna þessara samtaka á opinberum vettvangi á undanförnum dögum, vikum og missirum.

En við Íslendingar eigum heilmikil tækifæri ef við náum að breyta stjórnarstefnunni í landinu. Það eru gríðarlegar auðlindir sem við getum byggt á. Það er mjög hagstætt gengi fyrir útflutninginn og innlenda framleiðslu. Í krafti náttúruauðlinda og öflugs og góðs gengis fyrir útflutninginn, þótt erfitt sé fyrir kaupmáttinn, eigum við að nota það og við eigum að nota það að íslenska þjóðin er vel menntuð og vinnufús. Það eru stórkostleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við getum unnið okkur út úr þessu.

Til að svo megi verða gengur ekki að við völd í landinu sé ríkisstjórn sem aftur og aftur leggur rangt til. Það erum ekki bara við sjálfstæðismenn sem bendum á það, heldur benda m.a. forseti ASÍ og forustumenn Samtaka atvinnulífsins á það aftur og aftur að ríkisstjórnin flækist fyrir, leggur rangt til og leggur jafnvel illt til eins og við höfum séð í umræðum um sjávarútvegsmál. Því verður að linna, frú forseti, og við verðum að ná fram meiri (Forseti hringir.) samstöðu um það hvernig við Íslendingar eigum að nýta tækifærin okkar því að þau eru mörg og rík.