138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:25]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér ræðum við efnahagsmál. Ég held að okkur sé hollt í upphafi að horfa aðeins til baka og horfa til þess í hvaða umhverfi við tókum við þegar hrunið varð hér, eftir tímabil ójöfnuðar og óréttlætis þar sem regluverkið brást, frjálsræðið var of mikið, agaleysið, gróðafíknin, spillingin og siðleysið réðu völdum. Það eru hlutir sem eru enn þá að þvælast fyrir okkur í endurreisninni vegna þess að alltaf koma fram ný og ný atriði sem valda vandræðum og óánægju og særa réttlætiskennd íslenskrar þjóðar.

Það var við þessar aðstæður sem endurreisnin hófst og margt hefur verið gert. Ég held að það sé mikilvægt að menn tali ekki þau atriði niður þótt margt meira þurfi að gera. Í upphafi höfum við unnið samkvæmt samstarfsáætlun ríkisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og í öllum meginatriðum farið eftir þeirri áætlun. Það tókst að gera stöðugleikasáttmála þar sem samið var um kjör þar sem gerð var áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum og unnin aðgerðaáætlun. Þó að sumir hafi kvartað yfir að hún hafi gengið of hægt eftir er hún enn þá í fullum gangi. Á þau orð sem hafa komið frá Alþýðusambandinu og Samtökum atvinnulífsins lít ég sem hvatningu um að halda áfram á þessari braut og láta verkin tala. Við getum heils hugar tekið undir það.

Við höfum tekist á við mjög erfið fjárlög og náð verulegum árangri bæði árið 2009 og fyrir árið 2010. Við vitum að verkefnin eru mörg fram undan. Við vitum að við lifðum hér um efni fram sem þjóð, ekki bara útrásarvíkingarnir, heldur kemur í ljós að við áttum aldrei fyrir þeim útgjöldum sem við stóðum fyrir. U.þ.b. 20% af framkvæmdum voru fyrir lánsfé og þess vegna verðum við að laga samfélagið að þessu breytta ástandi, ekki að því ástandi sem var árið 2007, ekki reyna að flytja okkur upp í það ástand sem var heldur upp í það sem við áttum raunverulega inni fyrir á þeim tíma með eigin tekjum.

Það hefur tekist að endurreisa bankana, vonum seinna. Það náðist samstaða allra stjórnmálaflokka, það er eins og það gleymist stundum, um aðgerðir í þágu heimilanna þótt öllum sé ljóst að meira þurfi að gera.

Ráðist hefur verið í ítarlegar aðgerðir í þágu fyrirtækjanna, en þar er að þvælast fyrir okkur þetta sull sem kemur upp úr pottunum frá fyrri tíma og þarf ekki að hafa mörg orð um það. (Gripið fram í: Jæja.)

Aftur á móti hefur orðið hér verulega mikil breyting á lagaumhverfinu og meira í pípunum. Hér er unnið að ítarlegum tillögum um lagabreytingar til að hindra að hlutir sem gerðust í tíð fyrri ríkisstjórna gerist aftur.

Þetta eru verkefnin sem við erum að vinna við. Heilmikið hefur náðst og við höfum fylgst með því hvernig lagaumhverfið hefur einmitt breyst varðandi nýsköpunarfyrirtæki og í sambandi við aðkomu fyrirtækja að ýmsum nýjum störfum í landinu. Það er heilmikil vinna fram undan. Það er okkar að nýta þá stöðu sem við höfum vegna lágs gengis í sjávarútvegi, í stórum og smáum iðnaði og hátæknifyrirtækjum. Við vitum að landbúnaðurinn hjálpar okkur líka á þessum tíma, ferðamennskan og þessi atriði.

Varðandi sjávarútveginn, af því að ég hef verið að vinna að þeim málum, harma ég að þar hafi verið aukið á óvissuna með þeirri aðferðafræði sem LÍÚ notaði, að vera ekki aðili að þeirri vinnu sem þar er í gangi til að reyna að ná sátt um sjávarútveginn. Það boðar ekki gott þegar menn boða eingöngu sáttatillögur með því að farið sé að þeirra eigin tillögum en ekki reynt að leita að sátt um málin.

Ég vil bara segja að lokum að margt hefur gengið miklu betur en áætlað var og spáð var fyrir ári. Við eigum ekki að tala það niður, en það er vá fyrir dyrum. Það krefst þess að við stöndum saman í áframhaldandi vinnu, vinnu við breytt og betra samfélag, að bættu regluverki og eðlilegum viðskiptasjónarmiðum sem byggja ekki á loftbóluhagkerfi og fölskum forsendum heldur nýjum (Forseti hringir.) gildum þar sem raunveruleg verðmæti standa á bak við neyslu okkar.