138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ríkisstjórnin er núna nýlega orðin eins árs, ríkisstjórn sem boðaði að mikið samráð yrði haft við helstu hagsmunaaðila og þjóðina þegar kæmi að úrlausn mikilvægra mála. Orð eins og réttlæti og gagnsæi voru þá mjög algeng í orðræðunni. Þegar við lítum þetta ár til baka, hvað höfum við náð að afreka í sölum Alþingis? Höfum við staðið undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að stýra Íslandi á þeim tímum sem blasa við okkur í dag? Því miður hefur tíminn og orkan að verulegu leyti farið í skylmingar í ræðusal Alþingis. Virðing þingsins hefur sjaldan verið minni. Er ekki eðlilegt ef við horfum á árangur verkanna?

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því frá því að við byrjuðum að ræða þetta blessaða Icesave-mál, frá fyrsta degi, að nú skyldu menn setjast niður, forustumenn flokkanna, og reyna að ná einhverjum sameiginlegum markmiðum um það hvernig við ættum að leysa það mál. Hvernig gekk okkur í þeirri orðræðu? Nei, ríkisstjórnin ætlaði að fá sitt fram. Hún kom með þetta mál inn í þingið án samráðs við stjórnarandstöðuna og því fór sem fór. Núna horfum við á möguleika á að hugsanlega getum við sameinast um það stóra mál hvernig við ætlum að berjast fyrir hagsmuni þjóðarinnar. Ætti þetta ekki að vera svona í öðrum málum?

Það er ár síðan við framsóknarmenn töluðum fyrir því að það þyrfti að leiðrétta skuldir heimila og fyrirtækja í landinu. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra komu hér upp og blésu þá hugmynd út af borðinu þó að Framsóknarflokkurinn hefði nýlega áður sett ákveðin skilyrði fyrir því að verja þá minnihlutastjórn vantrausti. Nú segja sömu hæstv. ráðherrar að það sé svigrúm til þess í dag að koma til móts við vanda skuldugra heimila í bönkunum. Var ekki það svigrúm fyrir hendi fyrir ári eins og við sögðum? Jú. Og ef við hugsum um innviði samfélagsins — við erum að ræða hér um efnahagsmál — vitum við að þeir verða að vera traustir. Hverjir eru þeir? Heimilin, fjölskyldurnar og atvinnulífið. Eftir þetta ár búum við við 9,5% stýrivexti og allt of háa verðbólgu. Við búum við hæsta vaxtastig í heiminum. Við búum líka við það að íslensk heimili eru þau skuldugustu. Íslenskt atvinnulíf er það skuldugasta. Það hefur ekkert gerst á þessu ári í því að koma til móts við vanda skuldugra heimila og fyrirtækja.

Ef við skoðum könnun sem gerð var um daginn gagnvart þeim sem hafa reynt að nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar sögðu hátt í 90% af þeim sem hafa nýtt sér þessi meintu úrræði að þau gögnuðust sér ekki sem skyldi. Getum við ekki sammælst um það, hæstv. forsætisráðherra, að við setjumst niður eins og fólk, þvert á flokka, og reynum að finna lausn á þeim vanda sem blasir við heimilunum og fyrirtækjunum?

Við höfum búið við það í eitt ár að ekki hefur verið nægjanlega komið til móts við heimilin. Það er mikið svigrúm í bankakerfinu til að koma til móts við heimilin, koma hjólum atvinnulífsins af stað aftur. 14.000–15.000 Íslendingar eru án atvinnu. Þegar 14.000–15.000 Íslendingar eru án atvinnu og 10.000 Íslendingar hafa flutt úr landi kemur það orðið hverri einustu fjölskyldu við. Við þurfum að fara að snúa þessu við og við þurfum að fara að iðka þau stjórnmál sem ríkisstjórnin lofaði á sínum tíma, að við mundum takast á við þetta vandamál sem ein heild en ekki sem stjórn og stjórnarandstaða. Því miður ræður ríkisstjórnin ferðinni í þinginu og samráð við okkur í minni hlutanum er mjög takmarkað, ef nokkurt.

Að lokum vil ég fá að þakka sérstaklega Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir frábært starf á undangengnum vikum og mánuðum í þágu (Forseti hringir.) íslenskra heimila.