138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fæ á tilfinninguna eftir þessa umræðu að ríkisstjórnin nái ekki alveg skilaboðunum sem ég vil flytja hér í dag sem eru þau að það þarf að hefja verðmætasköpun í samfélaginu. Það þarf að fara að nýta þau tækifæri sem við höfum úr að spila. Við eigum ekki að bregða fæti fyrir þá sem eru tilbúnir til að koma með fjármagn inn í atvinnulífið og skapa ný störf; við eigum ekki að ráðast gegn undirstöðuatvinnugreinunum, eins og er verið að gera í sjávarútvegi og á mörgum sviðum iðnaðarins. Við eigum að setja okkur metnaðarfyllri markmið um að auka hagvöxtinn meira en ríkisstjórnin hefur verið tilbúin til að gera. Þetta þarf að gera til að forða þeirri stöðnun sem blasir ella við og vinna á því mikla atvinnuleysi sem við horfumst í augu við í dag.

Hæstv. fjármálaráðherra segir t.d. að staðan sé betri núna en spáð var. Gott og vel, hvað segir það okkur? Hvort segir það okkur að spárnar hafi verið of svartsýnar eða að ríkisstjórninni hafi tekist að forða einhverjum vanda sem við blasti? Ég hef ekki heyrt nein dæmi um aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að forða því að þessar spár mundu rætast. Það segir mér ekkert annað en að spárnar voru of svartsýnar. Það er ekkert annað.

Menn eiga ekki að koma hingað upp og stæra sig af því að spárnar skuli ekki hafa gengið eftir þegar þeir hafa ekkert lagt af mörkum. Eða halda menn því fram að hærri skattar á fyrirtæki og einstaklinga hafi skilað þessum árangri?

Við lesum það í blöðunum í dag frá Viðskiptaráði að 45% fyrirtækja í landinu muni þurfa að segja upp fólki beinlínis vegna skattbreytinganna sem ríkisstjórnin innleiddi á síðasta ári. Nær annað hvert fyrirtæki mun segja upp fólki vegna þeirra skattkerfisbreytinga og hækkunar á sköttum sem ríkisstjórnin stóð fyrir á síðasta ári.

Varla eru það þá skattarnir.

Er það þetta hik sem við höfum séð við það að nýta orkuna í landinu? Nei, það er alveg öruggt að þetta er ekki liður í því að staðan er aðeins skárri en svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Fjármálaráðherra gekk m.a.s. svo langt hér áðan að tína til það sem væri í pípunum sem horfði til betri vegar og gæfi okkur tilefni til bjartsýni. Hann nefndi þar kísilverksmiðju í Þorlákshöfn. Það er ágætt að hann skyldi nefna hana vegna þess að það voru einmitt fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur sem treystu sér ekki til að taka afstöðu í því máli. Þeir sátu hjá. Það var með atkvæðum Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem orkusölusamningurinn var kláraður til þess að tryggja að verkefnið kæmist á koppinn. Hæstv. fjármálaráðherra skilur þó a.m.k. hvað það er sem skiptir máli, en hann og hans fólk hefur bara ekki treyst sér til að taka þátt í þeim ákvörðunum.

Hér höfum við bara rætt það sem getur forðað meira atvinnuleysi og aukið tekjur ríkisins. Gleymum ekki að horfa á útgjöld ríkisins sem verða að koma niður. Samtök atvinnulífsins segja að við eigum enn eftir að spara u.þ.b. 50 milljarða kr. Það þarf heljarmikið átak til að ná þeim sparnaði fram í opinberum rekstri. Mér fannst menn ekki sýna nægan kjark þegar við sjálfstæðismenn buðum upp á samstarf og lögðum til meiri niðurskurð en stjórnarflokkarnir gerðu vegna fjárlaga yfirstandandi árs. Menn verða að gera meira og betur og fara að útskýra hvernig þeir ætla að ná nauðsynlegum sparnaði í opinberum rekstri. Þetta er umræða sem á að eiga sér stað núna strax, við eigum að fara að leiða hugann að því hvernig við náum þeim sparnaði fram á næsta ári. Takist okkur að ná árangri, vinna bug á þessari krísu, stýra þjóðarskútunni út úr þessari lægð á fáum árum, getum við vonandi horft til baka til ársins 2010 og sagt: Þarna stóðu menn frammi fyrir erfiðum ákvörðunum en þeir höfðu þó a.m.k. kjark og vit á því að efna til samstöðu til þess (Forseti hringir.) að taka réttar ákvarðanir.