138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

staða efnahagsmála.

[15:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem vekur mér undrun í þessari umræðu, m.a. hjá síðasta ræðumanni og fleirum, er að hér er talað eins og nánast ekkert hafi verið gert (Gripið fram í: Lítið.) frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Notað er orðið „ekkert“ hvort sem verið er að tala um atvinnumálin eða stöðu heimilanna. Þetta er alrangt. Hér er verið að mála stöðuna allt of dökkum litum. Er það að ekkert hafi verið gert þegar vextir hafa lækkað úr 18% í 9,5? (Gripið fram í: Hæstir í heimi enn þá.) Er það að ekkert hafi verið gert þegar verðbólgan er nú lægri en hún hefur verið í 22 mánuði? Er það að ekkert hafi verið gert þegar atvinnuleysi er nú 2% minna en spáð var? Er hægt að segja að ekkert hafi verið gert þegar hallinn á ríkissjóði er kominn á tveimur árum úr 218 milljörðum í 99 milljarða? Og ég vil benda þeim á sem segja að þetta sé allt tekið í gegnum skattahækkanir, eins og Samtök atvinnulífsins segja og mér fannst formaður Sjálfstæðisflokksins líka ýja að, að það er bara rangt. Nýjar tölur sem ég er með frá fjármálaráðuneytinu sýna að bati frumjafnaðar á fjárlögum 2010 er 34% vegna aukinna tekna og 66% vegna lækkunar frumgjalda. Þetta er alveg þveröfugt við það sem menn halda fram.

Með þessu er ég ekki að segja að allt sé í besta lagi, þvert á móti. Það er margt sem þarf að gera í íslensku samfélagi. Þegar formaður Sjálfstæðisflokksins segir að við höfum ekki skilið þau skilaboð sem hann hafi verið að reyna að koma til skila í þessari umræðu, er það alrangt. Hann ræddi um það að hefja þyrfti verðmætasköpun. Er það ekki það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera og undirbyggja (Gripið fram í: Nei.) og mikið af því komið til framkvæmda? Gert er ráð fyrir því að fjárfesting í orkumannvirkjum og iðjuverum nemi samtals tæplega 400 milljörðum kr. fram til ársins 2017, þar af rúmir 264 milljarðar á þessu ári og næstu þremur árum. Ársverk við þessa framkvæmd eru áætluð samtals 12.600 til 2017, þar af tæplega 7.800 á þessu ári og næstu tveimur árum. Er það að gera ekki neitt að hefja hér undirbúning að verðmætasköpun? (Gripið fram í.)

Ég skil bara ekki þá umræðu sem hér fer fram. Við höfum tíundað það (Gripið fram í.) í þessari umræðu, fulltrúar stjórnarflokkanna, að nú þegar frá 2008 hafa orðið til 500 ný störf í nýsköpun. Það er verið að setja mikinn endurnýjunarþrótt inn í atvinnulífið með þeim aðgerðum sem við höfum verið að gera. (Gripið fram í.) Vissulega þarf að gera meira. Hér er sagt, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson: það hefur ekkert verið gert fyrir heimilin. Það er bara ekki hægt að nota svona orð. (BJJ: Hlustaðu á fólkið.) Ég veit að hægt er að gera margt fleira, við erum með ýmislegt í undirbúningi, en 80% af því fólki sem er í vanda hafa fengið úrlausn sinna mála í gegnum aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til. (Gripið fram í.) Það eru 15–20% heimila í miklum vanda sem við erum að vinna að að bæta úr en menn geta ekki horft fram hjá því að 50–70% hafa nýtt sér t.d. greiðslujöfnunarúrræðin sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Hefur það ekki hjálpað fólki?

Vissulega geri ég mér grein fyrir að heimilin eiga í miklum erfiðleikum, mörg hver, fólk sem býr í yfirveðsettum eignum og ræður ekki við skuldir sínar. Ég geri mér grein fyrir því að atvinnureksturinn á í miklum erfiðleikum, en við eigum ekki að mála ástandið svartari litum en þörf er á. Við eigum líka að reyna að koma bjartsýni inn í atvinnulífið og til fólksins. (Gripið fram í.) Ýmis teikn eru á lofti um að við getum vel unnið (Gripið fram í.) okkur út úr þessum erfiðleikum, en það gerum við ekki með svartsýnisrausi, kæru þingmenn. (Forseti hringir.) Við eigum að gera það með því (Gripið fram í: … ekki með orðagjálfri.) að halda m.a. á lofti því sem vel hefur verið gert og því (Forseti hringir.) að við getum náð okkur út úr erfiðleikunum. Það er staðreynd málsins.