138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér enn og aftur að strandveiðar sem munu líklega verða skilgreindar sem veiðar af strönd lands en hér er í rauninni verið að ræða um einhvers konar handfæraveiðar. Mér þykir mjög merkilegt, frú forseti, að hlusta á ráðherra blessa þetta kerfi eins mikið og hann gerir í ljósi þess að hann kýs að líta fram hjá ákveðnum staðreyndum varðandi sjávarútvegskerfið. Ráðherra heldur því fram að þetta styrki byggðir en hann horfir fram hjá því um leið að sú tímabundna atvinna sem af strandveiðum hlýst er væntanlega tímabundin styrking, ef einhver er, í þessum byggðum. Ráðherra er í rauninni að færa atvinnu frá þeim sem eru að vinna allt árið við fiskveiðar og fiskvinnslu til þeirra sem gera annað slagið út. Það er mjög sérstakt, frú forseti, þegar við horfum á tölur m.a. úr ágætri skýrslu sem hæstv. ráðherra vitnaði í að þá eru ekki nema eitthvað um 18%, ef ég man rétt, af þeim afla sem landað er í hverri höfn sem fara þar til vinnslu.

Það er athyglisvert líka að 24% af þeim sem tóku þátt í þessum ólympísku veiðum, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson kallaði þær, höfðu einhvern tíma selt aflaheimildir sínar. Er þetta það sem hæstv. ráðherra ætlaði sér í upphafi? Nú er verið að taka aflaheimildirnar, frú forseti, frá þeim sem vinna allt árið í þessari atvinnugrein. Ef hæstv. ráðherra er annt um að gera breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og auka nýliðun eins og mörgum er tamt um að tala, á einfaldlega að gefa þann frið sem þarf til að fara yfir þetta kerfi. Það er óásættanlegt þegar stjórnmálamenn og aðilar í sjávarútvegi eru að reyna að ná saman og sátt um breytingar á kerfinu að þá sé hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn að dæla inn frumvörpum, hverri vitleysunni á fætur annarri yfir þingið og þjóðina.