138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það sem gerðist á síðasta ári þegar verið var að prófa strandveiðarnar var að menn máttu skipta um heimilisfang frá því að lögin voru samþykkt og þar til þau tóku gildi og þá færðu margir heimilisfang útgerðarinnar og öll pósthólf voru upptekin hvort heldur sem var í Ólafsvík, Hellissandi eða Patreksfirði. Menn voru að fara inn í kerfið vegna þess að það var misjafnt hvernig gefið var inn á svæðin. Reynslan var sú, ég held ég muni það rétt, að í ágústmánuði voru fjórir róðrar á einu svæðinu á meðan á öðrum svæðum var hægt að róa allan tímann. Mín skoðun er sú að fyrst að menn eru ekki lengur með byggðakvótann inni í þessum strandveiðipotti þá eigi landið að vera eitt svæði og það á ekkert að hringla með það. Síðan getur hæstv. ráðherra skipt aflamagninu niður á mánuði og vegna þess að veiðin færist á milli svæðanna þegar líður fram á sumarið þá dreifir hann þar af leiðandi veiðinni inn á svæðin þannig að það gefur alveg augaleið að mun skynsamlegra er að gera þetta með þeim hætti vegna þess að reynslan segir okkur það að hitt hafi algerlega misheppnast og misfarist og við eigum að læra af biturri reynslu gagnvart því. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að menn hafi þetta eina svæði ef menn vilja og skipti síðan aflamagninu niður á mánuði til að að ekki sé allt veitt í byrjun tímabilsins vegna þess að þá veiðist kannski mest fyrir sunnan landið og síðan kannski fyrir norðan þegar líður á þannig að menn geta stýrt því. Ég tel og hvet hæstv. ráðherra til að hafa bara eitt svæði á landinu, því annars munu menn fara að gera sömu hluti og þeir gerðu á síðasta ári.