138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við getum svo sem þráttað um það, ég og hv. þingmaður, hvað sé veigamikið í samantekt háskólasetursins. Mér finnst þessi lýsing háskólasetursins á fyrirkomulagi veiðanna skipta gríðarlega miklu máli þegar við veltum þessu fyrirkomulagi fyrir okkur. Þetta eru ólympískar veiðar, þetta byggir á því, eins og þarna segir, að menn fara af stað með miklum látum þegar gefið er grænt ljós, hleypt af startbyssunni, og hundruð báta þeysast af stað. Þetta er út af fyrir sig dálítið skemmtileg lýsing á kappi en þetta er hins vegar ekki góð lýsing á einhverju fyrirkomulagi sem við teljum að geti leitt til mestu arðsemi eða hagsbóta fyrir greinina og þar með þjóðarbúið.

Ég er hins vegar ekki að gera lítið úr mögulegum samfélagslegum ávinningi af einhverju svona fyrirkomulagi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að auðvitað eru efnahagsleg áhrif af því, skárra væri það. Við erum að veiða 4.000 tonn af þorski og auðvitað eru efnahagsleg áhrif af því, gífurlega mikil efnahagsleg áhrif af því að veiða 4.000 tonn af þorski, skárra væri það nú. Engum hefur t.d. dottið í hug að það munaði ekki um 4.000 tonn. Og það er auðvitað líka þannig, eins og ég rakti áðan, að það er verið að stofna til kostnaðar sem ella hefði ekki verið stofnað til og það hefur auðvitað efnahagsleg áhrif. Það er fínt fyrir vélsmiðjurnar, það er fínt fyrir aðra sem eru að vinna þessa hluti, mjög gott. En erum við ekki sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er í sjálfu sér ekki til efnahagslegra hagsbóta fyrir þjóðarbúið í heild að við aukum tilkostnaðinn í sjávarútveginum til að veiða jafnmikinn afla og við ætluðum ella að veiða því að ekki er verið að tala um það væntanlega að hér hafi verið deilt út 4.000 tonnum umfram það sem annars hefði verið gert. Það er eingöngu verið að taka ákvörðun um það að veiða 4.000 tonn á handfæri yfir sumarmánuði í stað þess að veiða það með einhverjum öðrum hætti. Menn geta síðan deilt um samfélagslegu áhrifin, þau eru auðvitað til staðar, en sem efnahagslegt vægi (Forseti hringir.) inn í þjóðarbúið er það óneitanlega svo að þetta hefur valdið kostnaði án þess að heildarafraksturinn aukist.