138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[16:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég var mjög andvígur því frumvarpi sem hér varð að lögum síðasta sumar þegar ákveðið var að hefja hinar svokölluðu strandveiðar og færði fyrir því ýmis rök sem sneru að því að strandveiðarnar voru ekkert annað en afturhvarf til þeirrar veiðistjórnar sem við bjuggum við á árum áður, einhvers konar útfærsla á gamla skrapdagakerfinu. Allir þeir sem þekkja til sögu fiskveiðistjórnar á Íslandi vita hvernig reynslan varð af skrapdagakerfinu, hvers lags gríðarleg sóun varð vegna þess fyrirkomulags sem var á veiðunum og hversu miklu skipti fyrir okkur Íslendinga að komast út úr því og yfir í annað fiskveiðistjórnarkerfi sem hafði það að markmiði annars vegar að hámarka tekjurnar af þeim afla sem barst að landi og hins vegar að lágmarka þann tilkostnað sem félli til við veiðarnar og vinnsluna. Það var lykilatriðið.

Verði þetta frumvarp að lögum festir það í sessi það fyrirkomulag sem við reyndum í vor. Ég tek eftir því að nokkuð er vitnað til þess að ánægja hafi verið að meðal strandveiðimanna með strandveiðarnar, nema hvað. Að sjálfsögðu er ánægja hjá þeim sem fá allt í einu tækifæri til að veiða án nokkurs annars tilkostnaðar en útgerðarkostnaðarins sjálfs, þ.e. þurfa ekki að leigja eða kaupa kvóta, að sjálfsögðu er ánægja með það. Enda mátti sjá þá ánægju í þeim fjölda báta sem bættust við fiskveiðiflota Íslendinga til að ná í þau 4.000 tonn sem þá voru til umráða.

Það er alveg sama hvernig maður snýr þessu máli, það er alveg sama hvað maður gerir margar úttektir og hvernig maður reynir að tala um samfélagsleg áhrif o.s.frv. að það er ekkert sem breytir þeirri staðreynd að kostnaðurinn við að sækja þann afla, þau 4.000 tonn sem við vorum að fást við í sumar, var meiri fyrir þjóðarbúið vegna þess að við fórum þessa leið. Undan því verður ekki vikist og ég hef ekki heyrt nokkurn mann reyna að rökstyðja neitt annað. Síðan getur auðvitað verið að menn telji það mjög mikilvægt við þær aðstæður sem eru uppi núna í íslensku efnahagslífi, að fá meira líf og stemningu í nokkrar hafnir hér og hvar í kringum landið. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og tek undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, það er að sjálfsögðu allt hið besta mál. En það er bara þannig að við Íslendingar höfum ekki efni á því að búa til fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur þetta einna helst að markmiði, því að alveg örugglega er ekki um að ræða það markmið að hámarka þann arð sem er til skiptanna fyrir þjóðina af fiskveiðiauðlindinni en það er sú skylda okkar alþingismanna, þ.e. að búa sjávarútvegi Íslendinga þann ramma og þann grundvöll að hægt sé að hámarka hagnaðinn af þessum veiðum. Það er nefnilega hægt að koma þessu þannig fyrir, frú forseti, að allir geti fengið að fara á sjó sem vilja, að allir geti keypt sér lítinn bát og farið að veiða. Það er alveg hægt að koma fiskveiðistjórnarkerfinu þannig fyrir á Íslandi. Og það væri hægt að afnema allar hömlur þannig að allir gætu farið og veitt frjálst og óhindrað. Við vitum nákvæmlega hvert það leiðir. Þó að það sé alveg hárrétt sem hér hefur komið fram, m.a. hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þetta frumvarp sé ekki stórt og mikið að vöxtum, það er ekki margar blaðsíður og ekki er verið að ræða um stórkostlegan tonnafjölda (Sjútvrh.: Þá er þetta mjög gott mál.) en þegar horft er til þess einmitt hversu smávaxið frumvarpið er, þá er alveg ótrúlegt hversu slæmt málið er. Það er slæmt vegna þess að hér er búið til fordæmi og lagður grunnur að áframhaldandi þróun í stjórn fiskveiða sem augljóslega hvílir ekki á þeim grunni sem við Íslendingar verðum að láta fiskveiðistjórnarkerfi okkar hvíla á.

Frú forseti. Að nokkrum einstökum greinum frumvarpsins. Í sjálfu sér er þetta samstofna og óþarfi að fara yfir í löngu máli það sem var farið yfir í ræðum í vor og sumar, en ég hnýt auðvitað um að í 1. gr. lagafrumvarpsins 5. tölulið, er tekið fram, með leyfi frú forseta, að „á hverju fiskiskipi er aðeins heimilt að draga 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð.“

Þetta er auðvitað í sjálfu sér frumleg og snjöll aðferð, þ.e. með því að minnka ár frá ári það magn sem má koma með í hverri veiðiferð minnkar náttúrlega sá vandi að takmarka þurfi hversu mörg skip koma til að veiða, vegna þess að það er jú takmarkað magn sem má veiða í hverjum mánuði, og með því að takmarka magn í veiðiferð minnkar vandinn í sjálfu sér hinum megin en myndar nákvæmlega sömu stöðu og var í skrapdagakerfinu. Á hverju ári var dögunum fækkað sem menn máttu nota skipin. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við þau 4.000 tonn sem við vorum með í sumar 2.000 tonnum, þannig að heildaraflinn verði 6.000 tonn.

Þetta fyrirkomulag veiðanna er nákvæmlega það sama, það á sem sagt að veiða 6.000 tonn með nákvæmlega sama hætti og við erum að veiða makrílinn, sem er einkar vond aðferð við að veiða fisk í keppnisveiðum, ólympískum veiðum, samkeppnisveiðum þar sem keppni felst í því hver veiðir hraðast og mest á sem stystum tíma. Við sjáum afleiðingarnar í makrílnum þar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur talið nauðsynlegt að grípa þar inn í hvernig menn ráðstafa þeim afla af því að hætt er við því að aflinn sé ekki rétt nýttur vegna þess að menn eru á kappveiðum og fyrirkomulag veiðanna er með þeim hætti. Sami hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hefur áhyggjur af makrílveiðunum og ráðstöfun aflans er nú að leggja til að festa í sessi og auka það magn sem má veiða með nákvæmlega sömu veiðiaðferðum, sama rammanum með kappveiðum. Ég hélt einhvern veginn að ef einhver þjóð og eitthvert þjóðþing væri búið að átta sig á þeim vandamálum sem fylgir ólympískum kappveiðum þá væru það Íslendingar. En þetta er staðan.

Það sem er nýtt að koma hér inn, sem er auðvitað alvarlegt mál og tengist þeim umræðum sem við áttum um skötuselsfrumvarpið, er að í þeim lögum sem nú gilda er gert ráð fyrir að það séu teknar aflaheimildir sem annars hefði verið ráðstafað í byggðakvóta. En samkvæmt frumvarpinu á að nálgast þetta þannig, eins og ég hef skilið það, að þegar búið er að ákveða heildaraflann á að taka til hliðar þessi 6.000 tonn og útdeila síðan hinu. Með öðrum orðum, frú forseti, það sem verið er að gera er það sama og við gerðum í skötuselsfrumvarpinu. Það er verið að kippa úr sambandi reglunni um hlutdeildarkvóta, hlutdeildarkvóta sem er þó það allra mikilvægasta. Og ég held að mesta sáttin sé um það og hefur verið hingað til að það væri lykilatriði og eitthvert það albesta sem væri í íslenska sjávarútvegskerfinu að hafa einmitt hlutdeildarkvótann. Menn gætu treyst því að þegar skorið væri niður hjá þeim eða þegar kæmi að því að möguleiki væri að auka afla, þá mundu menn njóta þeirrar aukningar. Hér er rétt, eins og er gert í skötuselsfrumvarpinu, verið að gera nákvæmlega það sama, skera þarna á. Það er alvarlegt mál. Það er alvarlegt mál að senda þau skilaboð til greinarinnar að menn geti ekki treyst þessum hlutdeildarákvæðum.

Frú forseti. Í athugasemdum við lagafrumvarp þetta er sagt, með leyfi forseta: Yfirlýst markmið með heimild til strandveiða var nýting sjávarauðlindarinnar á nýjum grunni þar sem mönnum væri gert mögulegt að stunda veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt.

Frú forseti. Það er ekki ábyrgt að víkja einmitt frá þeirri grundvallarreglu sem felst í hlutdeildarkerfinu. Hvers vegna ekki? Vegna þess að það er svo mikilvægt að þeir sem stunda sjómennsku og veiða á Íslandsmiðum séu einmitt samstiga vísindamönnunum í því að nýta þessa auðlind með ábyrgum hætti. Þegar nauðsynlegt er að draga úr veiðunum sé stuðningur við það innan greinarinnar. Sá stuðningur næst ekki fram nema menn viti og geti gengið að því vísu og það sé tryggt að þegar kemur að því að hægt er auka fái menn til baka í hlutdeild við það sem þeir gáfu frá sér. Enn og aftur, frú forseti, þetta er óábyrg nálgun. Hún er óábyrg vegna þess að hún eykur kostnað við það að veiða sem þarna er lagt til og hún rýfur þetta grundvallarsamhengi hlutanna sem er svo mikilvægt að sé.

En það er annað undir í þessu öllu saman sem við þurfum að velta fyrir okkur og skiptir verulegu máli. Það snýr að atvinnusköpun í landinu. Markmið þessa leiðangurs alls virðist vera að fleiri fái tækifæri til að gera út. Í staðinn fyrir að við reynum að komast af með sem fæst skip til að veiða þann kvóta sem við getum veitt, reyna með öðrum orðum að lágmarka útgerðarkostnaðinn og hámarka hagnað af veiðunum þá er hugsunin sú að fjölga. Með öðrum orðum, meiri kostnaður, á þeirri forsendu að það sé gott að auka möguleikana og fá fleiri til að taka þátt í þessu. Þá kemur að grundvallarspurningunni um stjórn efnahagsmála og hvað þetta snýst allt saman um.

Ég hafði það á orði í ræðu þegar við ræddum um skötuselsfrumvarpið að menn yrðu að muna það að allt þetta snýst ekki um að búa til vinnu. Það hefur alltaf verið gríðarlega mikil vinna á Íslandi. Við erum þjóðin sem sennilega fann upp vökustaurana af því að við unnum svo mikið árhundruðum saman. Það vantaði ekki vinnu fyrir íslenska alþýðu á öldum áður. En það sem vantaði var að vinnan væri arðbær, hún væri arðgefandi og það væri afraksturinn af vinnunni sem skipti máli en ekki vinnan sjálf. Ef mönnum hefur ekki lærst þetta eða skilist þetta er voðinn vís. Þetta snýst um það hvernig okkur tekst að nýta með arðbærum hætti auðlindirnar sem við höfum. Tilgangurinn er ekki sá að hafa sem flest skip á sjó. Ef það væri markmiðið væri þetta lítið mál. Tilgangurinn er ekki sá að sem flestir vinni við sjávarútveginn, þvert á móti. Auðvitað væri hægt að koma málum þannig fyrir að enginn maður gengi um atvinnulaus á Íslandi með því að við mundum t.d. taka sjávarútveginn þannig. Við mundum eyðileggja hann með því að opna hann alfarið og fara aftur í það vandamálakerfi sem við bjuggum við þegar arðurinn af þessari grein var enginn. Tapið var algert og við sigldum algerlega í strand. Það væri auðvitað hægt að fara þá leið, frú forseti, að banna vélar í báta og láta menn róa til fiskjar. Þá yrði nóg að gera. Þetta verða menn að hafa hugfast.

Það var reyndar þannig á öldum áður í Bretlandi að heil hreyfing fór af stað kennd við lúddíta sem fór á milli bæja og braut og bramlaði vélar vegna þess að það væru vélarnar sem rændu atvinnunni. Misskilningurinn var auðvitað alger og fullkominn. Misskilningur lúddíta var sá að vélarnar drægju úr velmegun almennings, að það væri sérstakt markmið í sjálfu sér, eins og sú hreyfing nálgaðist málin ef hægt er að tala um það þannig, þ.e. að markmiðið væri vinnan.

En markmiðið er afraksturinn. Markmiðið er fjölbreytileikinn, að til séu fjölbreytt störf fyrir alla sem skila arði. Það er það sem við eigum að vera að gera, það er svo mikilvægt þegar kemur að sjávarútvegsmálunum að við tryggjum það að við séum að nýta sem best þessa mikilvægu auðlind. Það gerum við með því að ræða það af því að við höfum ekki fundið út hið endanlega fiskveiðistjórnarkerfi. Við erum ekki komin á einhvern endapunkt í því. Það er margt sem betur má fara og margt sem við þurfum að laga. En þetta frumvarp er ekki til þess fallið. Það er til þess fallið að auka kostnaðinn og draga úr hagnaðinum. Það er það sem við eigum að gera, frú forseti, við þær aðstæður sem eru uppi á Íslandi, þ.e. að nýta náttúruauðlindirnar skynsamlega, nýta mannauðinn, hina menntuðu vinnufúsu þjóð til að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að etja og það gerum við ekki, frú forseti, ef við grípum til sömu hugmyndafræði og kom fram á fyrri hluta 19. aldar í Englandi að það væri vinnan sjálf sem væri markmiðið því það er það ekki, þá væri þetta svo auðleyst, frú forseti. Þá væru ekki nein vandamál sem við væri að fást ef þetta væri bara spurningin um það hvernig við komum sem flestu fólki í einhverja vinnu. Það væri þá alveg nóg, frú forseti, að sjávarútvegsráðherra, eins og ég sagði áðan, bannaði vélar í báta, þá væri búið að leysa það mál. Og auðvitað dettur ekki einu sinni þeim annars ágæta og merkilega sjávarútvegsráðherra það í hug, ég er sannfærður um það. En það er af þeim meiði, það er þessi villa, sú ranghugsun sem birtist í frumvarpinu og hefur birst líka í frumvarpinu um skötuselinn sem er svo alvarlegt. Þess vegna, þó að þessi frumvörp láti ekki mikið yfir sér, séu ekki mikil að vöxtum og snúi ekki neitt að svo gríðarlega mörgu tonnum, er ástæða til að hafa áhyggjur.

Að lokum vil ég segja þetta, frú forseti. Í umræðum á þinginu þegar við ræddum þetta síðast benti ég á að þetta mundi fara svona. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr eigin ræðu, þó það sé svolítið sérstakt, en þá sagði ég:

„Þetta mun bara fara svona: Annaðhvort eykur hæstv. ráðherra kvótann sem er til ráðstöfunar í þessu til að mæta því að fleiri og fleiri koma inn, og það sem mun gerast er að bátunum fjölgar til að nýta hinn aukna kvóta, eða að hæstv. ráðherra gerir ekki neitt og bátunum fjölgar þangað til að menn geta farið með þetta eins og gert var í Bandaríkjunum með lúðuveiðarnar, …“ — Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti.

Með öðrum orðum, það var fyrirsjáanlegt að þetta mundi gerast. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessu. (Forseti hringir.) Þetta er auðlindasóun og ekkert annað.