138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar réttindi strandbyggða. Ég veit að það hefur ekki farið fram hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að byggðir Íslands eru strandbyggðir að stærstum hluta. Það er einmitt þannig að útgerðin, hvort sem það eru smábátar eða stórir togarar, fer fram frá strandbæjunum. Þetta veit ég að hæstv. ráðherra er fullkunnugt um. Að sjálfsögðu verður hann að horfa á þetta allt saman í heild, það þýðir lítið að bera þetta saman við fyrirkomulag sem margar aðrar þjóðir hafa haft þar sem sjávarútvegurinn skiptir nákvæmlega engu máli og þar sem meira er horft á einhvers konar byggðasafnssjónarmið en eitthvað annað þegar horft er til slíkra kerfa. Ég treysti því og trúi að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki verið að horfa til slíkra fyrirmynda þegar hann smíðaði það kerfi sem við ræðum nú.

Síðan er hitt þegar kemur að umræðunni um réttlætið, þ.e. hver á að fá að veiða, ef hæstv. sjávarútvegsráðherra er þeirrar skoðunar að það kerfi sem við búum við sé fullkomlega og algerlega óréttlátt, hvers vegna staðnæmist hann bara við að leysa vandann með 6.000 tonnum í þessu fyrirkomulagi? Af hverju gengur hann ekki lengra? Af hverju segir hann ekki: Allan afla á Íslandsmiðum skal sækja með réttlátum hætti? Hvers vegna á réttlætið bara að ná til 6.000 tonna en ekki þeirra 130–150 þús. tonna sem annars er verið að veiða á Íslandsmiðum? Það er svolítið skrýtið að skammta réttlætið með þessum hætti. Annaðhvort er það þannig að menn trúa því að óréttlætið sé svona og berjast þá á móti því, en menn fara ekki fram með skammtalækningar þegar þeir fara fram á grundvelli réttlætisins. Það er heila málið. Þegar við alþingismenn ræðum fyrirkomulag veiða á Íslandsmiðum höfum við eina skyldu, hún er gagnvart þjóðinni og um það að fyrirkomulagið sem við setjum hámarki afraksturinn af þessari grein. Síðan getum við skattlagt þessa grein eins og aðrar greinar. Þetta má ekki fara aftur eins og var á árum áður þegar taka þurfti peninga úr ríkissjóði til að setja inn í útgerðirnar sem voru allar komnar meira og minna á hausinn. Biðstofur ráðherranna voru fullar af útgerðarmönnum á hverjum einasta degi sem voru að leita eftir fyrirgreiðslu til að bjarga sér og sínum. Það var fyrirkomulagið sem við bjuggum við þegar við höfðum opinn aðgang, þegar við bjuggum við t.d. skrapdagakerfið, og það er það fyrirkomulag sem ég ætla að berjast á móti, (Forseti hringir.) ekki fyrir hagsmuni einhverra einstakra eða fárra, heldur fyrir hagsmuni íslensku þjóðarinnar, að þetta fari ekki aftur í sama farið eins og var hér á árum áður.