138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur hæstv. ráðherra misskilið mig. Ég ræddi þessi tvö atriði akkúrat ekkert í ræðu minni, annars vegar um það að menn mættu ekki vera með fleiri en einn kvóta og hins vegar það að menn mættu ekki láta frá sér aflamark frá og með árinu 2011. Mér er fullkunnugt um það atriði í frumvarpinu en ég fór ekki yfir það í ræðu minni.

Það sem ég sagði var nákvæmlega það sama og ég sagði í sumar þegar við vorum að samþykkja strandveiðarnar: Mér finnst óréttlátt að þeir aðilar sem eru búnir að selja sig út úr greininni komist inn í strandveiðar. Ég geri enga athugasemd við það að menn selji sig út úr greininni og kaupi sig aftur inn í hana með því að kaupa sér aflamark, hvort heldur sem það er í krókaflamarki eða öðru, ég geri enga athugasemd við það. En inn í þetta kerfi eiga að mínu viti ekki að koma þeir sem hafa selt sig út úr greininni og það var alveg hægt að koma því þannig fyrir a.m.k. í eitt ár. Ég viðurkenni það hins vegar, og gerði það líka í sumar, að menn geta komist fram hjá því með því að stofna önnur hlutafélög, hafa aðra eigendur og eitthvað í þeim dúr en það var alla vega hægt að gera þetta einu sinni. Það hefði verið hægt að gera það í sumar. Mér þótti mjög dapurlegt að meiri hluti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vildi ekki skoða það mál.

Það er líka mjög mikilvægt í ljósi sögunnar, eins og ég fór yfir áðan, að þegar handfærakerfið var lagt niður þá var það einmitt krafa þessara manna sem voru inni í því. Það var ekki utanaðkomandi krafa. Þeir sem störfuðu í kerfinu voru búnir að búa sér til viðmiðun og börðust fyrir því að fá kerfið lagt niður. Ég er ekki búinn að gleyma þeim reiðiræðum sem ég hélt yfir flokksfélögum mínum þegar það var gert. Ég var mjög ósáttur við það. Þess vegna sagði ég í ræðu minni áðan að það væri mjög mikilvægt að menn horfi til þess hvernig þetta þróast en komi ekki fram með einhverjar lækningar á hverju ári. Menn verða að setja sér ákveðin markmið þannig að sjái fyrir endann á þessu svo að þetta fari ekki í sömu vitleysuna og það gerði fyrir örfáum árum.