138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:41]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn eitt frumvarpið um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég held að ég hafi í ræðu í sumar, við eina af þeim frumvarpsbreytingum sem þá voru á döfinni, nefnt að frá því að lögin tóku gildi frá 1990 væri búið að breyta þeim meira en 40 sinnum. Þetta segir okkur það auðvitað að þetta eru mannanna verk og við erum að kljást við að deila út takmarkaðri auðlind. Það er erfitt að gera svo að öllum líki en það er stöðugt verið að reyna að bæta í, reyna að stoppa í götin og laga til þó það hafi kannski ekki allt verið til bóta sem gert hefur verið.

Enn á ný erum við komin hér og enn á ný ætlar ríkisstjórnin að magna upp deilur í stað þess að setja þetta verkefni í þá sátta- og samráðsnefnd sem hún hefur þó komið á fót. Engu að síður leggur hún þetta frumvarp fram. Mér liggur við að halda, og það má eiginlega segja það, að þetta frumvarp hafi verið búið til um leið og frumvarpið um strandveiðarnar, hin tilraunaútgáfan, sem var kynnt í sumar og keyrt með miklu hraði í gegnum þingið í júní. Þrátt fyrir að menn hafi ætlað sér að læra af reynslunni væntu stjórnarliðar þess að þeir kæmu síðan aftur í haust með tilbúið strandveiðifrumvarp, það var svo augljóst að það mátti eiginlega gefa sér að það gerðist alveg sama hvað upp á kæmi í sumar.

Þetta frumvarp, sem mun væntanlega ganga undir gæluheitinu strandveiðifrumvarpið, ætti þá kannski að fjalla um raunverulegar strandveiðar þar sem menn nota stöng, standa á ströndinni og veiða, eins og menn gera til að mynda í Garðinum. Menn hafa jafnvel verið að velta því fyrir sér sem lið í ferðaþjónustu að reyna að skoða landið allt hvað það varðar að hefja slíkar raunverulegar strandveiðar. Ef menn eru verklausir í sjávarútvegsráðuneytinu og koma þess vegna inn eins gert er í dag að láta ganga til atkvæða um eina breytingu og kasta tveimur, þremur öðrum breytingum fram í þingið á sama tíma og samráðsvettvangurinn starfar þá er kannski rétt að benda þeim á verkefni sem þarf að sinna og það eru skipulagsmál í fjörðum og við strendur. Það eru raunveruleg vandamál sem þar eru að skapast í tengslum við þá sem vilja nýta lífríki sjávar næst landi, bæði frá hendi þeirra sem eiga jarðirnar og ákveðinn rétt þar og svo eins lengra út frá landinu í sambandi við fiskeldi, kræklingaeldi og ýmislegt annað. Það er mjög mikilvægt að ríkisvaldið fari að móta sér stefnu í því að væntanlega þarf að gera þetta með einhverjum hætti skipulagsskylt þannig að þar sé hægt að stýra nýtingunni því að þetta er vitanlega takmörkuð auðlind líka.

Ef við höldum okkur við þetta frumvarp og þessa strandveiðihugmynd ríkisstjórnarinnar má svo sem spyrja sig, eins og menn hafa gert í ræðustóli á undan mér, hvað hafi gerst í sumar og hver hafi verið ávinningurinn. Mig minnir að menn hafi verið að tala um að það mundu kannski að hámarki verða 300 skip og bátar sem færu út á sjó og á þessar veiðar. Þau reyndust þegar upp var staðið vera 554. Á sama hátt var áætlað að veiða ætti yfir 4.000 tonn og ég held að það hafi veiðst yfir 4.100 tonn á þessari sumarstrandveiðivertíð en nú er áætlað að fara í 6.000 tonn.

Annan árangur má svo sem skoða í þeirri skýrslu sem ráðherrann kynnti til leiks en hann sagði í ræðu sinni að kostirnir væru ótvíræðir. Ég minnist þess ekki að hann hafi minnst á einn einasta galla. Það má vel vera að þá megi finna og jafnvel í skýrslunni líka en þó voru kostirnir fyrst og fremst taldir upp í henni. Maður gæti til að mynda spurt: Hvernig er með hagkvæmni eða óhagkvæmni veiðanna? Það var aðeins nefnt með gæðin að það hefði komið á óvart að þau hefðu verið meiri en menn bjuggust við. En hvernig voru gæði hráefnisins? Hvert var markaðsverð á vörunni sem þarna kom upp? Hvernig var með þá áhættu sem margir töluðu um, þegar um 550 skip og bátar færu á flot í alls konar aðstæðum með mismunandi reynslu og kunnáttu? Hver var reynslan af því? Hvernig var með fjölda útkalla Landhelgisgæslunnar og annað slíkt?

Það hefur líka verið nefnt að einungis 17,3% af aflanum hafi orðið til þess að atvinna skapaðist í heimahöfn. Er það ásættanlegur samfélagslegur ávinningur? svo að maður noti nú orð ráðherrans sem taldi að þetta snerist kannski um samfélagslegan ávinning.

Þá má líka spyrja: Hvað varð um byggðakvótann og tengingu við hann og hvernig verður hann þá í kjölfarið? Upphaflega átti að taka þetta að öllu leyti úr byggðakvótanum þegar hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon var sjávarútvegsráðherra en hæstv. ráðherra Jón Bjarnason endaði í sumar með 50%. Nú er engin tenging við hann. Hvað þýðir þetta fyrir byggðakvótann á mismunandi stöðum? Það væri áhugavert að fá að heyra það og við þurfum kannski að ræða það í nefndinni.

Það má líka velta fyrir sér af hverju þessi 800 kg voru lækkuð niður í 650. Það hafa komið upp aðeins mismunandi áherslur í því hvernig það skilar sér. Af hverju á að auka kvótann í 6.000 tonn? Hvað gerist þá næsta ár? 550 bátar síðasta sumar, verða þeir 700 á næsta sumri? Hvar ætla menn að hætta? Þetta mun, eins og margir hafa komið inn á, auka eftirspurnina eftir því að fá meiri aðgang að þessari takmörkuðu auðlind.

Í frumvarpinu kemur líka fram að enn á að auka á ráðherraræði og er það kannski nóg á Íslandi. Þetta eru geðþóttaákvarðanir ráðherra um skiptingu á landsvæðum og aflaheimildum innan þeirra innan hvers mánaðar. Það má minna á að í því frumvarpi sem við greiddum atkvæði um fyrr í dag var miðstýringar- eða ráðherraræði þar sem ráðherrann ætlaði sjálfur að skipta sér af því hvernig einstaka fyrirtæki meðhöndlaði makrílveiðar í stað þess að setja hann inn í aflamarkskerfi. Með þeim hætti hafa fyrirtækin bent á að auka mætti verðmæti sjávarafurða milli 6 og 8 milljarða jafnvel. En í stað þess á þetta vald að vera hjá ráðherra og hann á að taka geðþóttaákvarðanir um það og það þó að hér í ræðustól hafi verið bent á, og hæstv. ráðherra jafnvel viðurkennt, að þessi landsvæðaskipting hafi verið „algerlega misheppnuð“ eða bara „misheppnuð“ — ég man ekki hvort orðalagið var notað, ég geri svo sem ekki greinarmun á því — en hún var það klárlega síðasta sumar.

Það má auðvitað ræða um strandveiðar og við gerðum það framsóknarmenn í sumar, að strandveiðar per se væru í sjálfu sér kannski ekkert galnar en menn þyrftu að setja það niður fyrir sér um hvað þær ættu að snúast. Kannski ættu þær ekki að vera hluti af atvinnuveiðum. Kannski er það bara eðlilegt að menn geti róið til fiskjar og veitt og þá þurfa þær að vera takmarkaðar með einhverjum hætti. Kannski er hægt að taka einhvern samanburð við landbúnað, til að mynda þá sem hafa sauðfé. Það hafa allir rétt til að hafa sauðfé en þeir sem búa við það að vera með sauðfjárrækt kaupa sér gjarnan kvóta eða eru í því af fullum krafti. En allir geta átt sínar 10 kindur og fengið útrás fyrir þá athafnaþörf að sinna þeim. Það getur vel verið að strandveiðarnar eigi sér ákveðinn rétt þannig að hver og einn hafi þann möguleika að róa til fiskjar og þar með verður líf í höfnunum yfir sumartímann. En með þeim formerkjum sem þetta var gert í sumar, og heldur kannski áfram hér, er verið að ýta undir að þetta sé leið inn í raunverulega atvinnusköpun sem kannski ýtir undir það að menn sæki óþarflega mikið í kvóta á kostnaðarverði og að eftirspurnin eftir sívaxandi kvóta eða sívaxandi aflaheimildum verði sú sem við þekkjum úr öðrum tilraunum til að koma þessum breytingum á í kerfinu.

Mig langar að ræða aðeins um markmið laganna. Það er oft ágætt að fara til upprunans og í 1. gr. laganna, þar sem fram kemur markmið þeirra, er sagt að nytjastofnar á Íslandi séu sameign íslensku þjóðarinnar og markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmari nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Það er líka áréttað að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Við framsóknarmenn höfum margítrekað að mjög mikilvægt sé að koma ákvæðum um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá.

Í ljósi þessa markmiðs er áhugavert að sú skýrsla sem ráðherra vísaði til yrði kannski dýpkuð. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði í andsvari við ráðherrann fyrr að kannski væri nauðsynlegt að kanna þetta ítarlega. Ég vil ganga heldur lengra og leggja það til við ráðherrann — ég sakna þess að hann er ekki hér inni — að hann hlutist til um að hlutlaus aðili geri úttekt á því. Þar ætti að kanna hagkvæmni veiðanna, og þá bæði með tilliti til einstakra útgerða sem og heildarinnar, og eins þessa samfélagslegu þætti sem munu þá snerta bæði atvinnu og tekjur byggðarlaganna og síðan markaðslega þætti. Ég held að það sé áhugavert að skoða það áður en við höldum lengra á þessari braut.

Það kom líka fram í ræðu ráðherrans að ákveðinn hluti lítils byggðarlags hefði skrifað honum bréf, 183 íbúar, og þakkað kærlega fyrir þessa aukningu í starfsemi þeirra, sem er hið besta mál. En hvað með jafnaðarregluna? Hvað með íbúa í Suðurkjördæmi sem gátu greinilega ekki nýtt sér þetta kerfi á síðasta ári eins og til hafði verið ætlast enda veiddist lítið í því svæði. Við getum líka rifjað upp skötuselsákvæði þar sem þeir sem hafa aflaheimildir í skötusel hafa ekki heimild til að sækja í þær aflaheimildir sem ætlað er að úthluta með öðrum hætti í því kerfi, hvað með þá? Er þetta leiðin sem ráðherrann ætlar að fara? Ég held að þarna séu ýmsar spurningar sem við verðum að taka upp í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.

Ég sagði það einhvern tíma í sumar þegar ég var að hefja vinnu mína í þinginu að ég mundi geta þess í lokaorðum í 1. umr. um öll frumvörp sem ríkisstjórnin legði fram að þó að fylgiskjal fylgi frá fjármálaráðuneytinu fylgir aldrei, ég man varla eftir nokkurri undantekningu, fylgiskjal frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga þar sem kannað er hvaða kostnað frumvarpið, viðkomandi breyting eða ný lög, hafi í för með sér fyrir sveitarfélögin í landinu. Hér þyrfti það að gerast. Ég er hins vegar alveg meðvitaður um að hér á eftir ætlum við að ræða frumvarp um veiðileyfisgjald þar sem tekjurnar eiga að renna til hafnanna. En ég held að það sé eðlilegt að öllum frumvörpum frá ríkisstjórninni fylgi ekki einasta umsögn fjármálaráðuneytisins um áhrif á kostnað ríkisins heldur einnig umsögn sveitarfélaganna um áhrifin á fjárhag þeirra. Læt ég ræðu minni lokið í fyrstu lotu um þetta strandveiðifrumvarp.