138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er að kalla eftir afstöðu til þess grundvallaratriðis hvort nýtingarrétturinn, hvort sem um er að ræða á fiskstofnum eða á landi, eigi eða geti verið í einkaeign á sama tíma og auðlindin sjálf, fiskarnir í hafinu eða landið okkar Ísland, geti verið í ríkiseign eða umsjá ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar. Hvert sem horft er hafa menn séð að þar sem ríkið hefur slegið eignarhaldi sínu á nýtingarréttinn, þjóðnýtt þann rétt, og/eða mönnum hefur ekki tekist að koma neinum slíkum rétti á, og um hefur verið að ræða opna almenninga, hefur það haft skelfilegar afleiðingar og má benda á fiskveiðistjórnina eins og hún var árum og áratugum saman. Ég er að kalla eftir svari við þeirri spurningu: Styður hv. þingmaður að bændur hafi séreignarrétt á jörðum sínum og útgerðarmenn séreignarrétt hvað nýtingarréttinn varðar? Ég legg þetta að jöfnu því að hér er um að ræða nýtingu á náttúruauðlind, endurnýjanlegri náttúruauðlind, og sömu lögmál hvað stærstu drættina varðar gilda um þessar auðlindir.

Það er eðli máls samkvæmt erfiðara og flóknara að koma á nýtingarrétti í sjávarútvegi. Við höfum þó stigið þessi skref vegna þess að sagan hefur kennt okkur að með því að koma á séreignarnýtingarrétti leitast menn við að hámarka tekjur af framleiðslu og lágmarka kostnað. Það á bæði við í sjávarútvegi og í landbúnaði. Það er þess vegna sem ég kalla eftir þessu. Ég held að best fari á því fyrir íslenska þjóð að það verði þannig, eins og kveðið er á um í lögum um stjórn fiskveiða, að það sé einhvers konar eign ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar — ég tel reyndar að orðalagið í lögunum sé misvísandi og ónákvæmt en þar sem það sé hugsunin — á stofnunum og þar með ábyrgðin á því að ákvarða hversu mikið megi veiða. Síðan séum við með nýtingarrétt á sjálfri veiðinni til að tryggja það sem ég nefndi áðan, að arðurinn sé hámarkaður sem best með því að hámarka tekjurnar og lágmarka kostnaðinn við fiskveiðarnar. Því miður gengur það frumvarp sem við ræðum hér alveg þvert gegn allri slíkri hugsun því að þar förum við í þá áttina að auka kostnaðinn þar sem við ættum ekki að gera það.