138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð umræða og kannski mun áhugaverðari en frumvarpið sem við vorum að ræða áðan. Ég get tekið undir orð hv. þingmanns um að það snýr alls ekki að því að hámarka arð út úr greininni, hvað þá að lágmarka kostnað, kannski algerlega hið gagnstæða. En það snýr kannski að einhverjum öðrum þáttum.

Varðandi það að grundvallarnýtingarréttur geti verið í einkaeign en auðlindin sjálf í eigu þjóðarinnar þá er það alla vega afar mikilvægt í mínum huga að auðlindin sjálf sé í eign þjóðarinnar og að það ákvæði verði með einum eða öðrum hætti tekið upp í stjórnarskrá og það sé nokkuð skýrt. Ég held að það sé einn af þeim þröskuldum sem gerir það að verkum að sjávarútvegurinn eigi undir högg að sækja hjá almenningi, hvort sem það er með réttu eða röngu. Það getur vel verið að það þurfi talsvert meiri umræðu um þessi hugtök hjá þjóðinni en ekki þær upphrópanir sem verið hafa.

Varðandi það hvort nýtingarrétturinn sjálfur geti verið í einkaeign eða hvort einhver tímatakmörk séu á leigu á honum þá er það eitthvað sem mér finnst mikilsvert að ræða. Ég get alla vega fullyrt að ég er sammála þingmanninum, ég er alveg sannfærður um að við séum sammála, um það að við viljum sjá að einstaklingar og hópar einstaklinga nýti þetta í samvinnu frekar en að um verði að ræða einhvers konar samyrkjubúskap eða ríkisbúskap hvort sem horfir til landnýtingar eða nýtingar á sjávarútvegi.

Ég held að þarna séum við kannski komin að málum sem við ættum að vera að ræða miklu meira um hér og einnig í þessari samráðsnefnd í sjávarútveginum til að reyna að skapa þá sátt sem þarf um þessa mikilvægu atvinnugrein í stað þess að vera að karpa um þetta strandveiðifrumvarp sem skilar ákaflega litlu.