138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ég orðin spennt að fá seinna svarið þar sem ég sé ekki hvernig það á að samrýmast síðustu fullyrðingu hv. þingmanns en ég bíð spennt.

Þá langar mig líka til að hv. þingmaður, sem er þingmaður fyrir Suðurkjördæmi, fái tækifæri til að svara þeirri spurningu sem var beint til þeirra þingmanna Suðurkjördæmis sem samþykktu frumvarp sjávarútvegsráðherra sem var til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr. í dag um hlut Suðurkjördæmis í því máli öllu saman. Ég veit að hv. þingmaður hlýtur að hafa sterka skoðun á þessu enda er sjávarútvegur gríðarlega sterkur í Suðurkjördæmi og grundvallaratvinnugrein í því kjördæmi sem og grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að núverandi fyrirkomulag sé ekki hagkvæmt. Er þá meiningin að fara yfir í félagslega kerfið sem ríkir í Evrópu þar sem bátarnir eru allt of margir, sjómenn eru margir og á lágum launum og til þurfa að koma bótagreiðslur af hálfu ríkjanna sem reyna að halda öllu þessu kerfi gangandi, í rauninni á félagslegum forsendum en ekki á þeim forsendum sem við höfum borið gæfu til að reka á Íslandi? Við höfum skapað þær aðstæður að hér er arðbær atvinnugrein sem er í rauninni fjöregg þjóðarinnar, þetta er öflugasta grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar og skapar okkur gríðarlega miklar gjaldeyristekjur. Við eigum að bera virðingu fyrir þessari grein og vera stolt af því umhverfi sem við höfum skapað. Ég er alla vega stolt af því.