138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:29]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er stutta svarið og það langa líka að ég er tilbúinn til að skoða allt sem má verða til þess að auka hagkvæmni í sjávarútvegi en allt skal þetta þó verða á grundvelli sjálfbærra veiða og sjálfbærni. Ég hef alltaf verið tilbúinn til að skoða góðar tillögur. Mér finnst að í umræðunni um strandveiðimál sé gert allt of mikið úr þessu máli. Ég hef allt aðrar og meiri áhyggjur af sjávarbyggðum en strandveiðum og skötusel, þær varða til að mynda aðild að ESB þar sem þessi fiskur fer á markað. Í því samhengi er þetta smámál sem við erum að tala um. Ég hef líka áhyggjur af því og hv. þingmaður e.t.v. þekkir og veit allt um það að talið er að 20% sjávarútvegsfyrirtækja standi afar illa og séu nær gjaldþroti. Fyrsta fyrirtækið er farið á hausinn og hefur verið ráðstafað, en það var Festi í Grindavík. Því var ráðstafað þannig að það skapaði ekki hættu en ég hef áhyggjur af því að við gjaldþrot fari bankar í það að hámarka gróða eða lágmarka tap, hvað verður þá um aflaheimildir gjaldþrotafyrirtækja? Ég get nefnt Snæfellsnes eða einhver önnur byggðarlög sem dæmi, hvað verður þá? Hvað verður um þá aflahlutdeild? Ef við segjum að 20% aflahlutdeildar séu í gjaldþrota fyrirtækjum og lendi inni í bönkunum, til hvaða aðgerða viljum við grípa til að tryggja að kvóti sem er afmarkaður við þetta landsvæði haldist? Það er afar mikilvæg spurning.

Viljum við sjá meiri byggðaröskun? Ég vil að kvótakerfi eða fiskveiðistjórnarkerfi tryggi byggð á landinu öllu.