138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið mjög fróðleg umræða í dag um sjávarútvegsmálin. Menn hafa farið vítt og breitt um völlinn og það er ágætt vegna þess að það er full þörf á að ræða sjávarútvegsmál í víðu samhengi í ljósi þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um greinina að undanförnu vegna þeirra hugmynda ríkisstjórnarflokkanna að fara hina svokölluðu fyrningarleið.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan að hann undraðist það hversu djúpar skotgrafirnar væru orðnar um þessar hugmyndir. Ég get upplýst hv. þingmann um að þrátt fyrir að það sé sáttanefnd í gangi vegna þessa máls eru skotgrafirnar orðnar svona djúpar vegna þess að sjávarútvegsmálin hafa ekki fengið að vera í friði fyrir ríkisstjórnarflokkunum þrátt fyrir að málið sé í sáttanefnd og það hafi verið sett þangað. Sjávarútvegsráðherra leggur fram frumvarp eftir frumvarp til breytinga á kerfinu okkar og í augum þeirra sem ekki lesa djúpt getur þetta litið út sem smávægilegar breytingar en hér er verið að tala um grundvallarbreytingar á þeirri hugsun sem hefur einkennt kerfið okkar. Í rauninni er verið að róa í þann grunn sem þessi mikilvæga atvinnugrein okkar byggir á. Þess vegna eru skotgrafirnar djúpar og það er skiljanlegt. Það er mjög miður að það sé svo, en ég skil einfaldlega fullkomlega hvers vegna málið er komið í þennan farveg. Það er vegna stefnu ríkisstjórnarinnar og vegna aðgerða ríkisstjórnarflokkanna þannig að það ætti ekki að koma hv. þingmönnum stjórnarliðsins á óvart.

Jafnframt kom fram í ræðu hv. þingmanns að fyrningarleiðin væri ekki endalok sjávarútvegs á Íslandi. Það má vel vera að eitthvað sé til í því en þessi umræða og þessar hugmyndir hafa hins vegar valdið tjóni nú þegar. Það er mikil óvissa um frekari uppbyggingu í greininni, menn halda að sér höndum varðandi fjárfestingar þar sem óvissan er alger.

Síðan hefur verið kallað eftir frekari útfærslu á þessari svokölluðu fyrningarleið af hálfu allra aðila. Þegar útfærslan kemur ekki fram fara menn að sjálfsögðu að draga ályktanir sínar af orðum hv. stjórnarþingmanna um hvað liggi í loftinu. Á þeim grundvelli draga menn ályktanir um það hvernig framtíðin verður. Þess vegna er varla boðlegt af hv. þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að gera lítið úr málflutningi þeirra aðila sem eru að reyna að byggja hugmyndir sínar um það hvert framtíðin kemur til með að leiða rekstur þeirra á ræðum og orðræðu stjórnarþingmanna. Það væri ágætt, herra forseti, ef hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, sem mér virðist vera varaformaður nefndarinnar, væri við ræðu mína þar sem ég kem til með að koma talsvert inn á gagnrýni þingmannsins á málflutning þeirra sem hafa gagnrýnt þessa fyrningarleið. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti getur upplýst að hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir er ekki í húsi. Það er hægt að kanna hvort hún er einhvers staðar ínáanleg.)

Já, takk fyrir.

Hv. þm. Atli Gíslason hélt því fram að innköllun og endurúthlutun mundi fara fram eftir að fyrning hefur átt sér stað. Hvernig mun endurúthlutun fara fram? Að því er mér virðist grundvallast röksemdafærsla vinstri manna á því að fyrri úthlutun hafi verið ósanngjörn, óréttlát, og nú skuli koma á sátt og réttlæti í þessu kerfi með valdboði, með því að innkalla aflaheimildir og endurúthluta. Hverjir eiga að standa að þeirri endurúthlutun? Eru það ekki stjórnmálamenn? Hver segir að sú endurúthlutun verði eitthvað réttlátari en sú fyrri í augum almennings? Þetta er einfaldlega eintóm endaleysa. Enginn rökstuðningur hefur komið fram sem útskýrir hvers vegna menn eru að fara í þessa vegferð.

Herra forseti. Íslenskur sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein okkar. Íslenskur sjávarútvegur er sú sterka stoð sem samfélag okkar byggir á og hefur aldrei verið mikilvægari en akkúrat í dag og kemur til með að verða hornsteinninn í því að endurreisa efnahag landsins. Samfélag sem byggir á sterkum sjávarútvegi sem með sjálfbærum veiðum skapar þjóðarbúinu miklar gjaldeyristekjur og þiggur ekki ríkisstyrki er öfundsvert hvar sem er í heiminum. Íslenska fiskveiðistjórnarkerfið hefur ásamt því harðduglega fólki sem starfar í greininni skapað slíkar aðstæður í íslensku samfélagi.

Þrátt fyrir það hefur kerfið frá upphafi verið umdeilt, ég er ekki að segja að það sé gallalaust frekar en nokkurt annað mannanna verk, en þetta er hins vegar kerfi sem hefur skapað þessar aðstæður sem ég rakti hér að framan. Stjórnmálamenn, aðallega á vinstri vængnum, hafa verið óþreytandi í að gagnrýna þetta kerfi og reyna að draga úr trúverðugleika þess án þess að hafa bent á hvaða aðrar leiðir á að fara, án þess að hafa lagt fram einhverja heildarsýn um það hvernig kerfið á að líta út, hvað annað á að koma í staðinn. Hins vegar er verið að kroppa utan af því og inn í það eins og þau frumvörp sem hafa verið rædd hér í dag bera merki.

Staðreyndirnar sýna okkur, miðað við þá umfjöllun erlendis þar sem litið er á kerfið okkar sem fyrirmynd, að þetta er besta kerfið sem tíðkast. Það er ekki gallalaust, eins og ég sagði áðan, og full ástæða til að fara reglulega yfir hvað betur má fara en hins vegar hefur enginn lagt fram aðra betri lausn. Sú stefna ríkisstjórnarflokkanna að hefja ríkisvæðingu aflaheimildanna 1. september nk. byggir einfaldlega á háskalegri hugmyndafræði og hún hefur ekki verið hugsuð til enda. Viðbrögð sveitarstjórnarmanna, útgerðarmanna, sjómanna, landverkafólks og allra þeirra sem veita sjávarútveginum þjónustu víðs vegar um landið hafa öll verið á einn veg, menn mótmæla þessum áformum ríkisstjórnarflokkanna hástöfum.

Sú vísbending um útfærslu fyrningarleiðarinnar sem birtist okkur í hinu svokallaða skötuselsfrumvarpi sjávarútvegsráðherra sem hefur verið til umfjöllunar á þinginu staðfestir þá skoðun. Leiðin virðist vera sú að auka aflaheimildir þvert á ráðleggingar vísindamanna og þar með er sjálfbærni kerfisins fórnað. Þess vegna skýtur hálfskökku við að hv. þingmenn Vinstri grænna sem tala hér fjálglega um sjálfbærar veiðar og vistvænt kerfi standi fyrir slíku. Að ráðherra úr þeim flokki skuli leggja fram þetta frumvarp er einfaldlega óskiljanlegt og ekki hefur verið svarað af hálfu fulltrúa þess flokks hvernig þetta fer allt saman saman, hvernig rökstuðningurinn á að ganga upp.

Auðlindin í hafinu er takmörkuð og sagan segir okkur að þegar verið er að úthluta verðmætum sem eru takmörkuð verður staðan alltaf sú að einhverjir telja sig ekki fá næg gæði í sinn hlut, það er einfaldlega augljóst. Í hvaða kerfi sem er, hvaða auðlind sem er þar sem eru ekki ótakmörkuð verðmæti til skiptanna, verða deilur um það hvernig skiptingin á að fara fram. Réttlæti og sátt er því ekki í augsýn þrátt fyrir að Vinstri grænir og Samfylkingin beiti sér fyrir því að innkalla allar aflaheimildir og úthluta þeim að nýju. Það skapar einfaldlega ekki réttlæti og sátt eins og viðbrögðin við þessum hugmyndum hafa sýnt okkur.

Íslenskur sjávarútvegur er burðarás í íslensku atvinnulífi og ein sterkasta stoðin sem við þurfum á að halda til að styrkja íslenskan efnahag til framtíðar. Við eigum sjálfbæran sjávarútveg sem skilar arði án ríkisstyrkja. Af hverju erum við einfaldlega ekki bara stolt af þeirri staðreynd? Hvers vegna höldum við þeirri staðreynd ekki á lofti? Hvers vegna leyfum við sjávarútveginum ekki að blómstra? Hvers vegna styðjum við ekki heldur við þessa traustu stoð okkar með því að efla kerfið enn frekar í stað þess að róa að því öllum árum að menn eyði tíma sínum hér í dag í að reyna að reikna út hvert framtíðin muni leiða okkur vegna þessara hugmynda ríkisstjórnarinnar sem tefla öllu kerfinu í óvissu? Ég skil einfaldlega ekki forgangsröðunina. Það er álíka vitlaust af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að fara í það núna á þessum óvissutímum. Óvissan er næg þrátt fyrir að ekki sé kastað fram hér slíkum hugmyndum. Þetta er álíka vitlaust og að sækja um aðild að Evrópusambandinu á svona tímum, en það hefur engu að síður verið gert í boði Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Ég skil ekki þessa forgangsröðun, herra forseti, og tel að menn ættu að endurskoða þetta allt saman.

Samtök atvinnulífsins hafa m.a. fjallað um sjávarútveginn í sinni nýútkomnu aðgerðaáætlun sem kallast Atvinna fyrir alla. Þar kemur fram, herra forseti, að treysta þurfi grundvöll núverandi fiskveiðistjórnarkerfis og standa þannig vörð um sjálfbæra og arðbæra nýtingu fiskstofna, að stjórnvöld þurfi að standa við samkomulag um að umfjöllun um lög um stjórn fiskveiða verði í sáttafarvegi þar sem sjávarútveginum verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til lengri tíma og að það þurfi að hverfa frá hugmyndum um fyrningu aflaheimilda. Hér liggur þetta einfaldlega skýrt fyrir, þetta er það sem þarf til að sjávarútvegurinn geti starfað í friði, í fyrsta lagi að staðið verði við samkomulagið um að málið sé í sáttameðferð. Það ætti að vera einfalt fyrir ríkisstjórnarflokkana að standa við sitt eigið samkomulag — það virðist engu að síður vera frekar flókið — og að dregið verði til baka þetta frumvarp um breytingu á stjórn fiskveiða sem gengur þvert á fyrirætlanir um starf nefndarinnar um stjórn fiskveiða og hefur haft þau áhrif að málið er allt saman í upplausn.

Við Íslendingar höfum gott kerfi sem við höfum getið okkur gott orð fyrir á alþjóðavettvangi. Við erum að mati annarra þjóða í fararbroddi. Sumir hv. þingmenn hafa talað fjálglega um að við ættum að fara í Evrópusambandið og að sjávarútvegurinn sé ekki í hættu þar vegna þess að Evrópusambandið ætli að taka upp íslenska fiskveiðistjórnarkerfið af því að það sé svo frábært, sömu þingmenn og tala nú fyrir því að það verði farið í þessa fyrningarleið. Það er ekki heil brú í þessum málflutningi.

Hæst af öllum í umfjöllun þingmanna ríkisstjórnarflokkana hefur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir blásið. Þar hefur m.a. verið fjallað um Deloitte-skýrsluna svokölluðu sem fjallar um úttekt á áhrifum fyrningarleiðarinnar. Sá hv. þingmaður hefur fullyrt, m.a. í grein á bb.is, að þetta sé litprentað áróðursrit af hálfu LÍÚ. Þetta eru alvarlegar fullyrðingar vegna þess að þarna liggur að baki vönduð vinna. Hv. þingmaður hefur fullyrt — ég veit ekki hvort hv. þm. Atli Gíslason getur svarað spurningum mínum um athugasemdir varðandi skýrslu Deloittes — en komið hefur fram, m.a. í þessari grein á bb.is, að leitað hafi verið eftir skriflegri álitsgerð frá Þórólfi Matthíassyni hagfræðiprófessor, hún hafi verið lögð fram og að í henni sé bent á að notast sé við afar einfalda og um leið takmarkaða aðferðafræði í þessari skýrslu.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þessi skýrsla hagfræðiprófessorsins hafi verið lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hvort hún sé unnin að beiðni nefndarinnar og hvort hún hafi einfaldlega verið lögð fram. Það gengur ekki að hérna sé vaðið uppi með þann málflutning að verið sé að gagnrýna vandaða vinnu frá aðila eins og Deloitte án þess að gögnin séu lögð fram. Ég er ekki í nefndinni og mig langar að vita hvort þessi álitsgerð hafi verið lögð fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Ég tel að það væri málinu til framdráttar ef útreikningar þessa ágæta hagfræðiprófessors kæmu fram. Það gengur ekki að hér sé ekki talað á grundvelli einhverra gagna og raka, heldur einfaldlega með einhverjum fullyrðingum og vísað í álitsgerðir sem hvergi hafa verið lagðar fram.

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ég hef farið um víðan völl um stjórn fiskveiða og fiskveiðistjórnarkerfið okkar. Ég vonast til þess að ég hafi ekki ofboðið hv. þm. Atla Gíslasyni svo, líkt og ég gerði hér í síðustu viku þegar ég ræddi um sjávarútvegsmál, að hann telji mig vera í málþófi. Ég fullyrði að ég er ekki í málþófi, ég er hér að nota rétt minn til að tjá mig um sjávarútvegsmál. Ég vona að ég hafi ekki sært blygðunarkennd eins eða neins með málflutningi mínum og vonast til að fá svör við þessum spurningum ef hv. þingmaður getur veitt mér þau.