138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[19:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér svo seint hljóðs var sú að ég hafði gengið út frá því sem gefnu að hæstv. sjávarútvegsráðherra kæmi til andsvara í lok þessarar umræðu og brygðist við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Er hæstv. ráðherra ekki í húsinu? Virðulegur forseti, er hæstv. ráðherra ekki í húsinu? Ég hafði gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra mundi bregðast við þeim spurningum sem fyrir hann voru lagðar. Ég er í sjálfu sér ekki að gera kröfu til þess að hæstv. ráðherra taki hér upp almenna umræðu um þetta frumvarp, við þingmenn höfum þegar rætt það og hæstv. ráðherra gerði grein fyrir sínum eigin sjónarmiðum í ræðu sinni, en hér voru áleitnar spurningar lagðar fram sem ég tel að skipti mjög miklu fyrir framhald málsins að verði svarað.

Nú er þetta mál á góðri leið með að fara inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Við sem þar sitjum þurfum að ræða það og þá skiptir auðvitað miklu máli að við höfum ákveðnar upplýsingar fyrir framan okkur sem hæstv. ráðherra einn getur svarað, pólitískar spurningar, pólitísk svör. Ég vakti t.d. athygli á því að ein þeirra breytinga sem þetta frumvarp hefði í för með sér frá þeim lögum sem nú eru í gildi varðandi strandveiðarnar, sé sú að hæstv. ráðherra sé öllum að óvörum að opna frekari leið til útflutnings á óunnum fiski frá strandveiðibátum.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það voru ekki nema 2% af aflanum sem fóru óunnin úr landi og það er örugglega jákvæð þróun frá sjónarhóli okkar margra. Landssamband smábátaeigenda benti einmitt á þetta um daginn á heimasíðu sinni og birti þær upplýsingar á grundvelli upplýsinga sem komu fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá mér um þetta mál. Þess vegna kom það mér satt að segja dálítið á óvart, svolítið spánskt fyrir sjónir, að átta mig á því að í frumvarpinu var í raun og veru verið að falla frá tilteknum takmörkunum sem gerðu það að verkum að erfiðara var að flytja þennan fisk óunninn úr landi. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna það sé? Þetta eru ekki svör sem við getum knúið á um gagnvart embættismönnum, þetta er spurning sem hæstv. ráðherra þarf að svara.

Í annan stað vakti ég athygli á því að eins og nú er komið sögu hefur hæstv. ráðherra sett á svokallað útflutningsálag, 5%. Það mun væntanlega virka þannig að ef eitthvað verður um að þessi fiskur verði fluttur úr landi, skerðist aflinn sem aðrir mega fiska úr þessum fasta potti sennilega sem nemur þessu 5% útflutningsálagi.

Einnig höfum við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson knúið mjög á um hugmyndir hæstv. ráðherra um hvernig þessari svæðaskiptingu eigi að vera háttað. Ég hef lesið vel úttekt Háskólaseturs Vestfjarða. Þar kemur greinilega fram að í raun og veru hafi svæðaskiptingin mistekist. Það hefði auðveldlega verið hægt að veiða miklu meira á A-svæðinu. Í ágúst var það t.d. þannig að veiðar hófust 4. eða 5. ágúst og voru síðan stoppaðar 12. ágúst á A-svæði, því þar voru menn komnir upp í þakið. Ef við skoðum síðan önnur svæði eins og B-svæði og D-svæði, sem ég hygg að séu fyrir Norðurlandi og Suðurlandi, þá var þetta allt öðruvísi, þá var ekki þessi nýting.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann mun fá þetta vald í sínar hendur, ekki þingið heldur hæstv. ráðherra: Hvaða hugmyndir hefur hann um þetta? Ætlar hann að flytja aflaheimildir af svæði D og svæði B, þar sem nýtingin var slökust, inn á svæði A og þá eftir atvikum svæði C, þar sem nýtingin var heldur betri? Þessu finnst mér að hæstv. ráðherra verði að greina okkur frá. Þetta eru ekki bara einhverjar trúnaðarupplýsingar, þetta er ekki einhver svartur kassi, svart box sem við þurfum að þreifa okkur í. Hæstv. ráðherra hlýtur að greina okkur frá þessum áformum sínum.

Ég vildi bara segja þetta. Ég ætla ekki að hefja hér almenna umræðu og ætlaði satt best að segja ekki að taka aftur til máls. En ég bjóst bara við því að hæstv. ráðherra kveddi sér hljóðs eins og alvanalegt er við lok svona umræðu og brygðist við þeim beinu spurningum, efnislega afmörkuðu spurningum sem fyrir hann voru lagðar.