138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[19:21]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Herra forseti. Vegna þess máls sem hér um ræðir er rétt að horfa á það í samhengi við aðrar breytingar sem hæstv. sjávarútvegsráðherra og meiri hluti Alþingis eru að gera á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Það er rétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur bent á, hér er um að ræða skatt en ekki gjald. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur staðfest það. Hvað þýðir þetta, herra forseti? Það þýðir að þegar horft er til þeirra skatttekna sem ríkið hyggst taka af sjávarútveginum vegna veiða er núna verið að auka skattheimtuna á greinina um 30 millj. kr. vegna þess að áfram berst sama magn af afla að landi þó að skipin verði nú fleiri, svo tugum ef ekki hundruðum skiptir með tilheyrandi aukakostnaði. Vegna þess hvernig málum er fyrir komið ætlar ríkisvaldið að taka meiri peninga inn af greininni, reyndar til að endurdreifa síðan til hafnarsjóðanna. Gott og vel, en það breytir ekki því að með samþykkt þessa frumvarps værum við að samþykkja auknar álögur á íslenskan sjávarútveg. Það er hægt að sjá það með því að horfa á hversu miklar álögur leggjast á hvert tonn upp úr sjó. Þetta bætist þá við það sem nú þegar er.

Allt er þetta enn á ný til marks um að sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum ætlar sér með góðu eða illu að breyta grunngerð fiskveiðistjórnarkerfisins á Íslandi. Nú hefur þessi ríkisstjórn að sjálfsögðu fullt frelsi til þess. Hún var kosin og fékk meiri hluta á þingi og situr hér með þingmeirihluta. Við það er ekki hægt að gera neinar athugasemdir aðrar en þær að þessar breytingar saman virtar eru ekki til þess fallnar að auka sveigjanleikann í sjávarútveginum, draga reyndar þvert á móti úr honum sem og hagkvæmni veiðanna ásamt því að auka á óvissu í greininni. Er alveg sérstaklega horft til þeirrar hótunar sem liggur í loftinu um innköllun allra aflaheimilda, fullkomna og algera þjóðnýtingu sjávarútvegsins. Maður spyr sig á þeirri stundu þegar íslenska þjóðin þarf einna mest á öflugum sjávarútvegi að halda hvað vaki eiginlega fyrir þessari ríkisstjórn sem flytur frumvarp eftir frumvarp, þar á meðal það frumvarp sem hér liggur fyrir, sem öll fara í sömu áttina, að grafa undan því kerfi sem við búum við.

Ég skyldi skilja það, herra forseti, ef nálgun ríkisstjórnarflokkanna væri sú að segja: Við viljum fá meiri peninga frá fiskveiðunum í ríkissjóð. Það væri ákveðið sjónarmið ef menn vildu reyna að brúa fjárlagahallann með aukinni skattheimtu á sjávarútveginn. Það vænti ég að lægi beinast við fyrir ríkisstjórnina — ég er ekki að leggja þetta til, herra forseti, en ég er að benda á það — að menn reyndu að auka skattheimtuna á greinina ef vilji væri til að bregðast við tekjutapi ríkissjóðs. En það er ekkert slíkt á ferðinni. Það eina sem er verið að gera er að grafa undan þessu kerfi þannig að hagkvæmnin minnkar, alveg óumdeilanlega.

Ég hef engan heyrt halda því fram að með því að fara út í strandveiðarnar séum við að auka hagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi. Það er svo augljóst mál. Það er verið að auka sóknarkostnaðinn gríðarlega í veiðunum á þessum tonnum sem er verið að leyfa þarna þannig að það er alveg augljóst að það er minni hagkvæmni í greininni. Það er ekki verið að hjálpa íslensku þjóðinni að komast út úr þessari efnahagskreppu sem við erum að fást við. Það er ekki verið að auka tekjur ríkissjóðs með þessu af því að hagnaðurinn í veiðunum, hagnaðurinn af þessu öllu saman, verður minni. Skattstofninn verður minni.

Ég tel reyndar að í þeim fylgiskjölum sem fylgja frumvörpum frá fjármálaráðuneytinu þar sem eru umsagnir um þau og menn reyna að geta sér til um hvort frumvörpin valdi auknum kostnaði fyrir ríkissjóð væri áhugavert að heyra frá fjármálaráðuneytinu hvort það teldi að viðkomandi frumvörp leiddu til samdráttar í skatttekjum. Allt bendir til þess að frumvarp um strandveiðarnar sem við höfum verið að ræða hér í dag leiði t.d. til samdráttar í skatttekjum. Skattstofninn minnkar vegna þess að hagnaðurinn minnkar í greininni.

Vandinn er að í stað þess að ríkisstjórnin einbeiti sér að því að vinna þjóðina út úr þeim efnahagsörðugleikum sem við erum að fást við, í stað þess að leggja allt kapp á að skapa traust og stöðugleika í grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, kemur inn í þingið frumvarp eftir frumvarp eftir frumvarp sem dregur úr hagkvæmninni.

Ég verð að segja að ég held að það sé hægt að finna rík og áhrifamikil rök gegn því að það sé eitthvert réttlæti á ferðinni eins og látið er að liggja í rökstuðningnum sem fylgir. Ég hef nú farið í nokkuð löngu máli yfir hann og bent mönnum á að þeir skyldu tala varlega sem handhafar hins endanlega réttlætis. Það vill þannig til að réttlæti eins kann að verða ranglæti annars og ég þekki engan sem hefur fullan og algjöran skilning á réttlætinu og er þaðan af síður handhafi þess. Örugglega er þetta ekki skynsamlegt efnahagslega. Þá stendur eftir að menn vilja breyta til að geta sagst hafa breytt, menn geti sagt: Þessi ríkisstjórn breytti sjávarútvegsfyrirkomulaginu á Íslandi.

Gott og vel. Það stefnir allt í það en menn hljóta að spyrja sig á Alþingi: Eru þær breytingar skynsamlegar og til þess fallnar að auka velferð íslensku þjóðarinnar bæði í bráð og lengd?

Ég hef margsinnis farið yfir það, herra forseti, að þær breytingar sem nú er verið að horfa á virðast til þess fallnar, í það minnsta miðað við það sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar segja, að það eigi að fjölga þeim sem sækja sjóinn. Hver er tilgangurinn með því að fjölga þeim sem sækja sjóinn? Er hann sá að meira verði til skiptanna? Er hann sá að það verði meiri tekjur til fyrir íslenskt þjóðarbú? Nei, það verður ekki þannig vegna þess að heildaraflinn er það sem myndar tekjugrunninn. Það er bara ef við aukum aflann sem við fáum meiri tekjur inn í þjóðarbúið. Með því að fjölga skipunum, fjölga þeim sem sækja sjóinn, aukum við tilkostnaðinn. Það verður minna eftir fyrir íslenskt þjóðarbú. Það verður minna eftir í skatttekjunum. Það verða minni möguleikar fyrir okkur að byggja hér upp velferðarsamfélag af því að við ætlum að eyða meira og meira af sjávarútvegsauðlindinni í sókn. Þetta er svo vitlaust, herra forseti, þetta er svo arfavitlaust. Öll reynslan, öll þekkingin og öll sagan mælir á móti þessu.

Við erum ekki að byrja að stjórna fiskveiðum við Íslandsmið núna, herra forseti. Við vitum alveg hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Við vitum að þegar við opnum fyrir aðganginn gerist bara það að það fjölgar og fjölgar á meðan hagnað er að hafa. Vandinn er eins og ég hef margsinnis bent á að þegar of margir verða komnir rís krafan og verður hávær um að það verði aukið í pottinum, að það verði farið úr 4.000 tonnum í 6.000 tonn, úr 6.000 tonnum í 8.000 tonn og svo koll af kolli. Krafan verður um meira vegna þess að öll hagkvæmnin er farin og komnir of margir eða að það verði lokað fyrir aðgang annarra. Þetta er alltaf sama sagan. Það er svo furðulegt núna þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir þessum efnahagsvandræðum að ríkisstjórnin skuli fara svona með sjávarútveginn.

Enn og aftur, ef tilgangurinn er að ná í meiri peninga fyrir ríkissjóð er þetta vitlaus leið sem við höfum farið. Hér er reyndar talað um skattheimtu sem á að renna til hafnanna. Ég get svo sem ímyndað mér verri staði fyrir peningana en það breytir ekki því að við erum að taka úr atvinnugreininni og færa eitthvert annað. Við eigum að hafa þessa löggjöf almenna. Við höfum aflagjaldskerfi þannig að þeir bátar sem leggja upp í hverri höfn greiða gjald til hafnarinnar gegnum það. Hvers vegna að búa til nýtt kerfi í kringum þetta? Af hverju auka á flækjustigið? Af hverju auka á gjaldtöku? Með þessu frumvarpi eru teknar u.þ.b. 30 millj. kr. meira úr greininni til hins opinbera. Það er verið að auka á gjaldheimtuna. Það væri nær að hækka bara aflagjaldið ef menn eru að horfa á það en ekki setja gjald eins og þetta.

Það er verið að auka á óvissuna í greininni. Það er verið að koma með ný gjöld, lítt útfærð og lítt hugsuð. Það er verið að breyta grundvallaratriðum í fiskveiðistjórnarkerfinu. Bæði í því frumvarpi sem við ræddum áðan þegar við greiddum atkvæði um skötuselinn við lok 2. umr. og þessu er kippt úr sambandi grundvallaratriðum í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu sem er aflahlutdeildin. Allir sem meta þetta kerfi og allir sem skoða það eru sammála um að það er lykilatriði og það allra besta í íslensku sjávarútvegskerfi. Menn geta haft sínar skoðanir um hvort það megi selja og kaupa, hvort það sé eðlilegt að menn geti leigt til sín eða leigt frá sér. Menn geta haft alls konar skoðanir á því en það eru allir sammála því að þetta atriði, hlutdeildarkerfið, sé það besta. Það tengir saman hagsmunina af því að fara varlega og skera niður þegar þess þarf af því að menn geti síðar fengið til baka aukninguna þegar betur árar.

Í báðum þeim frumvörpum sem við höfum rætt hér er klippt á þetta samhengi.

Sjá ekki hv. þingmenn hvert þetta stefnir? Eru menn svo lokaðir fyrir þessu að þeir átti sig ekki á því að þegar við samþykkjum trekk í trekk lög á Alþingi sem gera ráð fyrir því að þetta fari fram hjá þessu kerfi erum við að grafa undan þessum meginþætti. Það er ekki það sem íslensk þjóð þarf á að halda við þessar aðstæður. Það er alveg augljóst. Við þurfum á því að halda að skapa stöðugleika og hafa grunn fyrir skynsamlega nýtingu á þessari mikilvægu auðlind.

Auðvitað þarf að vera sátt í samfélaginu. Það þarf að vera nokkuð góð sátt um sjávarútveginn eins og allar aðrar atvinnugreinar. Ég veit það og geri mér fulla grein fyrir því eins og allir aðrir að slík sátt hefur ekki verið til staðar. En það verður engin sátt um það og á ekki að verða sátt um að brjóta það niður sem þó er skynsamlegt í kvótakerfinu. Það getur ekki orðið grundvöllur neins konar sáttar. Það er bara grundvöllur undir eitt, aukna sóun, minni tekjur, minni hagnað.

Við þurfum ekki að færa íslenskt samfélag aftur í það að búa til kerfi þar sem sóknargetan vex og vex og vex án þess að við aukum heildaraflann. Við höfum reynt það og það tók okkur alveg gríðarlegan tíma og mikil átök að koma okkur út úr því kerfi. Nú er kominn sjávarútvegsráðherra úr hópi Vinstri grænna sem hafa í sjávarútvegsstefnu sinni lagt alveg sérstaka áherslu á að það eigi að stunda fiskveiðar með sjálfbærum ábyrgum hætti. Er það, herra forseti, ábyrgt að kippa m.a. úr sambandi þeim mikilvæga þætti sem snýr að samhenginu sem myndast með því að búa hér við aflahlutdeildarkerfi? Getur það talist ábyrgt? Að sjálfsögðu ekki.

Er það síðan eins og við höfum svo ítrekað rætt hér skynsamlegt eða merki um sjálfbærni hvernig menn hafa nálgast umræður um skötuselinn? Nei, heldur ekki.

Allt þetta ber að sama brunni. Ég verð að segja eins og er að mér þykir einhvern veginn í þessari umræðu um sjávarútvegsmálin koma fram allt hið versta í stjórnarflokkunum, þ.e. undarleg og óskiljanleg þráhyggja þeirra í Samfylkingunni að þjóðnýta allan sjávarútveginn, sem ég held að yrði einhver mesta ógæfa sem yfir þessa þjóð gæti nú gengið, og síðan hjá Vinstri grænum einhvers konar misskilin rómantík um að við Íslendingar getum leyft okkur að reka sjávarútveg okkar á einhverju öðru en því grundvallarsjónarmiði að reyna að hámarka hagnaðinn af þessum veiðum. Við höfum ekki, herra forseti, efni á að gera slíkt. Það getur vel verið að einhverjar þjóðir geti leyft sér að reka sinn sjávarútveg sem einhvers konar byggðasafn, en við Íslendingar höfum það ekki.

Það er sérstaklega kveðið á um það í lögum um fiskveiðistjórn að reka eigi íslenskan sjávarútveg á sem hagkvæmastan hátt. Skylda okkar þingmanna er að búa til þá umgjörð um íslenskan sjávarútveg. (AtlG: Og efla byggðir landsins.) Og efla byggð í landinu. Hér kallar hv. þm. Atli Gíslason fram í að það sé nauðsynlegt að efla byggð í landinu en byggð í landinu mun ekki eflast með því að búa til óöryggi í íslenskum sjávarútvegi og þjóðnýta hann. Fiskurinn er einmitt sóttur úr sjávarbyggðunum út frá landsbyggðinni og þær aðgerðir (Forseti hringir.) sem lúta að því að grafa undan fiskveiðistjórnarkerfinu grafa undan byggðum landsins. Þannig er það, herra forseti.