138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í fréttunum í gær var greint frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hygðist mæla með aðildarviðræðum við Ísland á fundi sínum þann 24. febrúar nk. Það kemur jafnframt fram hjá alþjóðlegu fréttaveitunni Reuters að stjórnvöld á Íslandi hafi sagt að búist væri við að þessar viðræður tækju 12–14 mánuði eða eitt ár héðan í frá. Hæstv. forsætisráðherra brást ákaflega jákvætt við í útvarpi og sjónvarpi í gærkvöldi og greindi frá því að hún fagnaði þessari ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar mjög og teldi gott að framkvæmdastjórnin mælti með aðildarviðræðum. Hún sagði jafnframt að þetta væri gleðilegur áfangi og gott skref. Hæstv. forsætisráðherra lét síðan í ljósi þá von sína að þegar skriður kæmist á viðræðurnar, við færum að fá mynd á þær og fengjum betur að vita hvað í boði væri innan vébanda Evrópusambandsins yrði viðhorf manna til Evrópusambandsins jákvæðara en nú er. Eins og við vitum hefur komið greinilega fram í skoðanakönnunum að það er vaxandi andstaða við aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Sérstaklega var athyglisvert að sjá í könnun Viðskiptaráðs að andstaða innan viðskiptalífsins er að aukast gagnstætt því sem áður hefur verið.

Nú er það svo að einn af ábyrgðarmönnum þess að við erum í þeim sporum að sótt hefur verið um aðild að Evrópusambandinu er hv. þm. Ögmundur Jónasson. Hann var einn þeirra 33 þingmanna sem greiddu atkvæði með þessu, hann er með öðrum orðum einn þeirra sem auðveldaði þessa stöðu sem við erum í núna og hæstv. forsætisráðherra gleðst yfir. Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þessum gleðilátum hæstv. forsætisráðherra með henni, hvort hann telji ástæðu til að fagna því að framkvæmdastjórnin (Forseti hringir.) hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að mæla með því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og hvort það sé að hans mati eitt af þeim brýnu úrlausnarefnum sem við eigum að leggja á áherslu á næstunni.