138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir þessum lið til að ræða mál sem mjög hefur brunnið á þjóðinni undanfarna daga og vikur, þ.e. skuldameðferð bankanna á fyrirtækjum í landinu, sérstaklega tilteknum stórfyrirtækjum. Í þessari umræðu hafa komið fram miklar og alvarlegar upplýsingar sem benda til þess að í þessu ferli sé pottur brotinn. Eitt alvarlegasta dæmið sem nefnt hefur verið tengist meðferð Arion banka á fyrirtækinu Samskipum þar sem fyrri eigandi, sem mun hafa réttarstöðu grunaðs í umfangsmiklu fjársvikamáli, á að fá fyrirtækið á silfurfati að lokinni skuldameðferð. Viðskiptanefnd Alþingis hefur haft til umfjöllunar svokallaðar samræmdar verklagsreglur bankanna varðandi slíka endurskipulagningu fyrirtækja og ljóst er af þeim drögum sem þar liggja fyrir að bankarnir virðast fyrst og fremst leggja til grundvallar hámörkun arðsemi til skemmri tíma en ekki gæta þess nægilega vel að læra af þeirri bitru reynslu sem steypti fjármálakerfinu í glötun og lagði þungar byrðar á herðar almenningi í þessu landi. Mjög skortir á að þess sé freistað að auka viðskiptasiðferði eða traust almennings á þessu ferli.

Ég vil nefna nokkur sjónarmið sem ég tel að þurfi sérstaklega að gæta að við skuldameðferð bankanna. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að kanna til hlítar hvernig setja megi því skorður að stjórnendur stórfyrirtækja sem hafa keyrt þau í þrot svo þau geta ekki greitt af skuldum sínum geti fengið sömu fyrirtæki í hendurnar að lokinni skuldameðferð bankanna. Í öðru lagi verði þess gætt að öll fyrirtæki yfir tiltekinni stærð fari í almennt opið söluferli þar sem allir fjárfestar sitji við sama borð en fyrri eigendur og stjórnendur njóti þar ekki forréttinda. Í þriðja lagi að almenningur og fjölmiðlar hafi beinan aðgang að upplýsingum um skuldameðferð fyrirtækja þegar umfang afskrifta fer yfir tiltekið hlutfall. Síðast en ekki síst þarf að vega og meta til niðurstöðu þau lagalegu og siðferðislegu sjónarmið sem tengjast stöðu einstaklinga með réttarstöðu grunaðra í málum af þessu tagi.

Ég vek athygli á þessum málum því ég tel að það sé skylda okkar þingheims (Forseti hringir.) að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vekja athygli á þessum sjónarmiðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)