138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi kem ég hingað upp til að lýsa áhyggjum mínum af því að mér sýnist að þetta land sé í raun stjórnlaust. Það virðist sem stjórnarflokkarnir séu ósammála um flesta hluti og viti ekki hvað hinn flokkurinn vill eða ætlar sér að gera. Hæstv. forsætisráðherra þvælist um heiminn í leynilegum opinberum erindagerðum sem maður er loksins núna búinn að átta sig á til hvers voru, það var til að tryggja endanlega að við fengjum jákvæða umfjöllun um aðildarumsókn ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu. Við megum nefnilega ekki gleyma því, frú forseti, að það er ríkisstjórnin sem stendur á bak við þessa aðildarumsókn. Hér talar gjarnan annar ríkisstjórnarflokkurinn eins og hann eigi ekki þátt og sé ekki hlutaðeigandi í þessari ríkisstjórn, það sé bara Samfylkingin sem fari í þessa vegferð, en það er aldeilis ekki þannig. Við verðum að átta okkur á því að sú heimild sem fór fyrir þingið að þingið fjallaði um þetta kemur úr ríkisstjórninni. Vinstri græn samþykktu í ríkisstjórn að þetta færi fyrir þingið og bera jafna ábyrgð og Samfylkingin á því að þetta ferli er hafið.

Það þarf þó ekki að hafa áhyggjur af því hvernig þeir munu endanlega greiða atkvæði miðað við orð þeirra og ást á lýðræðinu. Það hlýtur að liggja í augum uppi, eða hvað? Nei, það liggur nefnilega ekki í augum uppi því að á meðan Vinstri græn tala út og suður um hvort þau séu í ríkisstjórn eða ekki, hvort þau ætli að styðja aðildarumsókn eða samning um Evrópusambandið eða ekki, rekur landið áfram stjórnlaust því að menn ná ekki saman um stóru málin sem mestu máli skipta, þ.e. heimilin og fyrirtækin. Þetta er alveg með ólíkindum. Hér er grein eftir einn af aðalmönnum Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi þar sem hann lýsir því yfir að það sé ekki stjórnarsáttmáli í gangi heldur stefnuyfirlýsing. Hvernig má vera að þessir flokkar vinni saman að eins konar yfirlýsingu en hafi ekki sameiginlegt markmið fyrir þjóðina? Það er mjög undarlegt. (Forseti hringir.) Frú forseti, Vinstri græn bera jafna ábyrgð á því að við erum í þessu ferli eins og Samfylkingin.