138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:51]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi ræða undir þessum lið, í fyrsta lagi það sem hv. þm. Þór Saari sagði varðandi skort á úttekt á stjórnsýslunni. Nú veit ég ekki hvernig málum er háttað í fjárlaganefnd enda á ég ekki sæti þar, en ég vil lýsa þeirri skoðun minni að mér finnst sjálfsagt að fram fari einhvers konar skoðun á stjórnsýslu í Seðlabankanum eins og reyndar er gert ráð fyrir að fari fram í stjórnsýslunni sjálfri. Hæstv. forsætisráðherra hefur kynnt það hér að eftir að rannsóknarskýrsla Alþingis verður lögð fram í byrjun mars mun fara fram úttekt á grundvelli þeirrar skýrslu á því hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis í stjórnsýslu ráðuneytis og stofnana ríkisins og í framhaldi af því að ef eitthvað óeðlilegt kemur í ljós á að grípa til viðeigandi ráðstafana. Ég vildi nefna þetta í þessari umræðu af því að skilja mátti af ræðu þingmannsins að það væri ekkert verið að gera varðandi úttekt á stjórnsýslunni.

Hitt atriðið sem ég vildi koma inn á, frú forseti, er það sem hv. þm. Skúli Helgason og Lilja Mósesdóttir nefndu varðandi þær reglur sem verið er að vinna að í viðskiptanefnd og snýr að endurskipulagningu skuldugra fyrirtækja. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum við þessar aðstæður að notast við allt önnur viðmið en við höfum notast við hingað til í íslensku samfélagi. Það eru breyttir tímar, það eru nýir tímar sem kalla á breytt gildismat og breytt siðferðismat. Og þó að það útheimti ekki hámark peningalegrar endurgreiðslu frá skuldurum í hvert skipti, segi ég: Þá verður bara að hafa það vegna þess að ég held að siðferðið úti í samfélaginu sé þannig í augnablikinu að menn kæri sig ekki um að þeir menn sem settu íslenskt samfélag á hliðina fái tækifæri til þess að endurtaka leikinn. Það er kominn tími til að stokka upp á nýtt og spila eftir nýjum leikreglum en ekki þeim gömlu sem komu okkur í þá stöðu sem við erum núna.