138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

aðildarviðræður við ESB -- skuldaaðlögun fyrirtækja -- stjórnsýsluúttektir.

[13:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á því að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem rætt hafa um endurskipulagningu á skuldugum fyrirtækjum. Ég tel að við þurfum að fara með þetta mál miklu lengra og ég tek undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur um að við þurfum að setja önnur viðmið.

Ég var með skriflega fyrirspurn til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra í haust þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hvaða afsláttur hefði verið gefinn á lánum, bæði húsnæðislánum og fyrirtækjalánum, á milli nýju og gömlu bankanna og svarið var mjög einfalt: Það var ekki hægt að svara vegna þess að það var bankaleynd. Það er alveg hreint með ólíkindum að það skuli vera þannig að sama fólkið og lánaði einstaklingunum íbúðarlánin rukkar þá nú. Þetta fólk fær bónus sem fer eftir því hvernig gengur að rukka. Ef vel gengur að rukka einstaklingana sem tóku lánin fær þetta fólk bónus út á það. Þetta er algerlega óskiljanlegt og ég tel mjög mikilvægt að við endurskoðum bankaleyndina til þess að við getum haft þessa hluti uppi á borðinu. Öðruvísi verður aldrei sátt í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Það sem ég ætlaði að kveðja mér hljóðs um undir þessum lið er sá niðurskurður sem á sér stað hjá Ríkisútvarpinu. Búið er að segja upp 15 fréttamönnum og verið er að loka svæðisstöðvunum úti á landsbyggðinni. Á sama tíma er Ríkisútvarpið búið að fækka um eitt stöðugildi í sölu- og markaðsdeild. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti: Er þetta rétt forgangsröðun, á meðan fréttastofan berst í bökkum við að koma upplýsingum til þjóðarinnar í því ástandi sem við erum í núna, skuli vera starfandi 26 manns í markaðsdeildinni? Mín skoðun er sú að þetta er algerlega ófært. Við verðum að ræða hér hvernig við ætlum að gera þetta og eins er skynsamlegra að draga úr kaupum á erlendu efni við þessar aðstæður. Þær aðstæður sem eru í þjóðfélaginu núna kalla á að það ágæta fólk sem starfar á fréttastofu (Forseti hringir.) Ríkisútvarpsins hafi burði til að koma þeim fréttum til almennings sem hann þarf að fá.