138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

179. mál
[14:12]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, við vinnum að þessu um land allt og í mjög góðu samstarfi við skóla og starfsmenntamiðstöðvar úti um allt land. Við horfum auðvitað líka til þess, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi sérstaklega, að skapa þessum unglingum raunverulegan möguleika á framhaldsnámi. Það er ekki skynsamlegt að horfa mjög þröngt á þennan hóp. Í mörgum tilvikum þurfa þessir krakkar að komast í skóla og við verðum líka að vera tilbúin til að hjálpa þeim að komast í skóla. Kannski er það besta vinnumarkaðsúrræðið sem þau geta fengið til virkni, frekar en einhver stutt námskeið sem gefa þeim bara möguleika á að fara aftur út á vinnumarkaðinn en þau langar kannski raunverulega að breyta um takt og komast í skóla.

Ungt fólk og vandi þess í atvinnumálum er umræðuefni allra kollega minna á öllum fundum sem ég kem á í nágrannalöndunum. Þetta er stærsta áhyggjuefni allra. Við vorum langaftast á merinni en ég get fullyrt að eftir það sem við höfum gert núna erum við í fararbroddi meðal nágrannalandanna. Það er horft til þess sérstaklega hvernig við höfum náð að byggja upp fókus á þarfir hvers og eins og að við skulum ekki alltaf hugsa um þetta út frá hólfum, að nú ætlum við bara að vera í vinnumarkaðsaðgerðum, heldur nálgumst krakkana út frá því hvað þau vilja gera. Vilji þau fara í nám, þá hjálpum við þeim að fara í nám. Vilji þau fara í fjölsmiðju, hjálpum við þeim til að fara í fjölsmiðju. Það er þessi áhersla sem vekur mikla athygli meðal nágrannalanda okkar og fólk horfir mjög til.

Við þurfum einfaldlega að halda áfram á sömu braut. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum takti í þessari vinnu, við vinnum áfram út árið. Það er gríðarlegur árangur að búið sé að ná þúsund manns nú þegar til verka, en það eru margir eftir og við þurfum að vinna (Forseti hringir.) áfram vel á næstu mánuðum.