138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf viðræðunefndar um einkaframkvæmdir.

355. mál
[14:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það megi segja að þessu starfi hafi miðað ágætlega og vinna nefndarinnar hafi gengið vel. Hún hefur haldið a.m.k. níu formlega fundi auk þess sem aðilar hafa rætt óformlega saman þess á milli. Hún hefur unnið að því að skilgreina þessi verkefni, hvernig þau eigi að skipast, að um sjálfbærar framkvæmdir sé að ræða og þetta sé gert á viðskiptalegum forsendum eins og eðlilega hlýtur að verða, samanber það sem hv. fyrirspyrjandi nefndi sjálfur. Í grófum dráttum má skipta þessu í þrjá flokka. Í fyrsta lagi opinber verkefni sem yrðu einfaldlega greidd að fullu með ríkisfé, í öðru lagi t.d. orkuverkefni þar sem saman færi gerð orkumannvirkja og virki til nýtingar á orku og loks sjálfbær verkefni þar sem fjármögnunin kæmi alfarið af tekjum sem af viðkomandi framkvæmdum spryttu.

Í fyrsta lagi varðandi vegaframkvæmdir er það að segja að Vegagerðin hefur nýlokið gerð skýrslu um arðsemismat á helstu framkvæmdum sem kæmu til greina í þessu sambandi. Þar hafa verið skoðaðar framkvæmdir eins og Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur um Kollafjörð, Sundabraut, Hvalfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng. Það má gera ráð fyrir því að Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur um Kollafjörð verði þarna fyrstir í röðinni, enda hefur það nú skipast þannig að Vegagerðin býður þessi tvö verkefni út til að framkvæmdir þeirra geti hafist, óháð því hvort þær færast síðar inn í slíkan heildarpakka einkafjármögnunar eða ekki. Rétt er að vekja athygli á því að það verður unnið fyrir 11 og hálfan milljarð í samgönguframkvæmdum á þessu ári en það er yfir meðaltali áranna 2002–2007 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers tíma.

Sérstök nefnd var skipuð til að skoða með hvaða hætti væri hægt að koma á veggjöldum og öðrum verkefnum sem veggjöld ættu að standa undir kostnaði af. Hún skilaði tillögum til samgönguráðherra undir lok nóvember og í framhaldi af því hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipað vinnuhóp sem fjallar sérstaklega um fyrirkomulag veggjaldanna sjálfra. Tilgangurinn er að fá fram hugmyndir og ábendingar um allt sem tengist slíkri aðferðafræði. Vinnuhópnum hefur verið falið að fjalla um kosti og galla þess að fjármagna vegaframkvæmdir með veggjöldum og hvaða leiðir eru mögulegar t.d. þegar ekki er um að ræða jarðgöng eða önnur afmörkuð verkefni þar sem einfalt er að koma innheimtunni við. Ég geri ráð fyrir að starfi þessa hóps ljúki mjög fljótlega og að í samgönguáætlun verði einhver umfjöllun um þetta mál sem byggi á störfum þessara tveggja nefnda.

Háskólasjúkrahús, eða nýr Landspítali sem ég vil nú gjarnan kalla hann, er tvímælalaust langstærsta framkvæmdin sem þarna hefur verið skoðuð. Verkefnisstjórn undir formennsku heilbrigðisráðuneytisins formar nú það verk, vinnur með lífeyrissjóðunum og skilgreinir aðkomu þeirra að þessu. Það var undirrituð viljayfirlýsing þar um 4. nóvember 2009 og Ríkiskaup fyrir hönd verkefnisstjórnarinnar auglýsti síðan eftir teymum sérfræðinga til að taka þátt í forvali um hönnun á þessu mikla mannvirki sem þar er undir, 66.000 m² nýbyggingu. Þessi tilboð voru opnuð núna 15. febrúar og eftir u.þ.b. viku verður væntanlega tilkynnt hvaða hópar komast áfram í sjálft úrvalið eða næstu umferð. Þá er gert ráð fyrir því að gerð endanlegra útboðsgagna auk eftirlits með endanlegri hönnun og öðru slíku verði komið fyrir.

Viðræður eru í gangi milli borgar og samgönguráðuneytisins um samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll og nú er vonast eftir því að það skýrist loksins á allra næstu vikum. Það er komin niðurstaða í staðsetninguna og þar af leiðandi á ekkert að vera í veginum hvað varðar skipulagsmál að framkvæmdin geti hafist.

Varðandi orkuframkvæmdirnar hefur einkum verið rætt um aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Sá er gallinn á að lífeyrissjóðirnir mundu að sjálfsögðu lána í krónum en orkufyrirtækin þurfa að tryggja sér erlent fjármagn sem nemur a.m.k. erlendum aðföngum við byggingu virkjunarinnar. Því er sömuleiðis í gangi skoðun á því að framleiðendur búnaðar eða erlendir aðilar komi með öðrum hætti að verkefnafjármögnun Búðarhálsvirkjunar.

Rætt hefur verið um mögulega aðkomu lífeyrissjóðanna að framkvæmdum á sviði uppbyggingar í ferðaþjónustu og að stofnaður yrði sjóður sem í framtíðinni nýtti tekjur úr greininni. Til þess að flýta slíkum framkvæmdum mundu lífeyrissjóðirnir leggja fram fé til framkvæmda á fjölsóttum ferðamannastöðum sem jafnvel gætu hafist þegar á þessu ári.

Af þessu svari má ráða að enn er ekki hægt að segja hvaða verkefni verður fyrst þarna í útboði. Ég hef þó vonast til að (Forseti hringir.) það gæti orðið samgöngumiðstöðin sem mjög fljótlega færi í útboð og þar á eftir Landspítali – háskólasjúkrahús.