138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf viðræðunefndar um einkaframkvæmdir.

355. mál
[14:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi vegaframkvæmdir, er meiningin að veggjöld standi að fullu undir þeim? Við þekkjum söguna með Hvalfjarðargöngin þar sem menn þurfa að greiða gjald en síðan eru byggð göng á mörgum öðrum stöðum sem ekki þarf að greiða fyrir.

Eins langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að umræðan verði í þinginu þegar ákvörðun liggur fyrir um hvernig menn hyggist fara í þessar framkvæmdir, eins og t.d. Landspítala – háskólasjúkrahús. Ég vil minna á að sporin hræða dálítið gagnvart tónlistarhúsinu, því þar var einungis heimild inni í 6. gr. fjárlaga og í raun og veru var aldrei nein umfjöllun eða ákvarðanataka í þinginu sjálfu um að fara í þá framkvæmd. Þótt núna liggi fyrir margra milljarða skuldbinding íslenska ríkisins gagnvart tónlistarhúsinu er það ekki enn þá komið inn í fjárlög. Mig langar því til að (Forseti hringir.) spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái fyrir sér framhaldið þegar fyrir liggur ákvörðun um háskólasjúkrahús.